Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

11. október 2023

Stöndum með þolendum

Frá starfsdeginum Stöndum með þolendum“.

Í gær stóð VIRK og heildarsamtök launafólks BSRB, ASÍ, KÍ og BHM fyrir starfsdegi fyrir starfsfólk stéttarfélaganna til að auka þekkingu og bæta móttöku þolenda kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni og ofbeldis á vinnustöðum. Yfirskrift verkefnisins er „Stöndum með þolendum“. Erindin á málstofunni voru fjölbreytt og fjallað var um ýmsar birtingarmyndir kynferðis- og kynbundins ofbeldis og áreitni á vinnustöðum. Farið var sérstaklega yfir áreitni gagnvart fötluðu fólki, innflytjendum og hinsegin fólki og þátttakendur fræddir um leiðir og tæki til að aðstoða þolendur.

 

Rót vanda kynferðisofbeldis- og áreitni er misrétti
Finnborg Salome Steinþórsdóttir, aðjúnkt í kynjafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, fjallaði um kynbundið ofbeldi á vinnustöðum í ljósi kynjaðra og samtvinnaðra valdatengsla í samfélaginu. Hún sagði að meirihluti þeirra sem beitt eru kynferðislegri áreitni og ofbeldi tilkynni ekki formlega um áreitnina eða ofbeldið sem það verður fyrir á vinnustaðnum.

Ástæðan er sú er að þolendur telja áreitnina oft ekki nógu alvarlega. En kynferðisleg áreitni hefur mikil áhrif innan vinnustaða, er orkusuga og skapar óöryggi innan vinnustaðarins. Slík áreitni kemur í veg fyrir þátttöku í félagslífi vinnustaðarins, fólk einangrar sig, veikindi aukast og fjarvera frá vinnustaðnum verður tíðari o.s.frv. Við þurfum að ráðast að rót vandans sem að er misrétti. Það er gert með því að brjóta upp valdastrúktúr innan vinnustaðarins. Einnig að brjóta upp ófaglega hegðun á vinnustaðnum. Við þurfum líka að breyta viðmiðum um hvað er ásættanleg hegðun og hvað er ekki ásættanleg hegðun. Kynbundnir brandarar eru t.d. alls ekki ásættanlegir, þá þarf að þjálfa starfsfólk í að bregðast við óásættanlegri hegðun á vinnustaðnum og að taka ábyrgð með þolandanum gegn áreinti og ofbeldi.“


Kynferðisleg áreitni á vinnustöðum
Edda Björk Þórðardóttir, sálfræðingur og lektor í faraldsfræði við læknadeild Háskóla Íslands, sagði í sínu erindi að kynferðisleg áreitni getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Hún er oft sett fram sem grín eða hrós.

„Kynferðisleg áreitni brýtur niður sjálfstraust kvenna, veldur kvíða sem getur leitt til þunglyndis. Erlendar ransóknir benda til að 11-72 prósent kvenna hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað og samkvæmt rannsóknarskýrslunni, Valdbeiting á vinnustað (2020), kemur fram að sérfræðingar í umönnunarstörfum eru líklegri til að verða fyrir áreitni en aðrir. Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram 33 prósent kvenna hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustað og 8 prósent svöruðu því að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á núverandi vinnustað. Konur sem starfa á opinberum vettvangi, við sviðslistir, tónlist og íþróttir eru líklegastar til að verða fyrir kynferðislegri áreitni og einhleypar konur eru líklegri en þær sem eru giftar/sambúð að verða fyrir slíku. Þá eru konur sem vinna í vaktavinnu líklegri til að verða fyrir kynferðislegri áreitni.“

Edda Björk sagði að ábyrgð atvinnurekanda séu skýr í lögum. Hún benti á að samkvæmt lögum er ábyrgð stjórnenda á vinnustöðunum mikil en líka meðal samstarfsmanna.

„Ef við bregðumst ekki við með því að breyta viðhorfum okkar hvernig heilbrigð viðhorf til þessa mála eru á vinnustöðunum þá erum við að samþykkja þessa menningu og líklegast er að þolandinn hætti og gerandinn haldi áfram að áreita. Við megum ekki ýta undir þá menningu að þagga þessi mál niður,“ sagði Edda Björk.

 

Móttaka þolenda kynferðisofbeldis
Karen Ósk Níelsins Björnsdóttir, lögfræðingur ASÍ, og María Þóra Þorgeirsdóttir, verkefnastjóri hjá VIRK fjölluðu um verklag og verkferla fyrir starfsfólk stéttarfélaga vegna móttöku þolenda kynferðisofbeldis og áreitni.

Þær sögðu að heildarsamtök launafólks væru að vinna í að gefa út leiðbeinandi verklag og verkferil fyrir starfsfólk stéttarfélaganna. Verkferillinn er unninn að með aðkomu ASÍ, BSRB, KÍ, BHM og VIRK.

„Ástæða þess að vera með upplýst verklag og verkferla vegna móttöku þolenda kynferðisofbeldis er að fólk þarf að upplifa öryggi í aðgerðum síns stéttarfélags, að það upplifi raunverulega aðstoð. Við viljum stuðla að fagmennsku og draga úr endurkomum vegna misskilnings og hlífa þolendum við endurfrásögnum af atburðinum og forðast í lengstu lög að senda fólk á milli staða í leit að hjálp.“