27. október 2023
Formaður Sameykis hvetur Katrínu til aðgerða gegn kynbundnum launamun
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis hvetur Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, til aðgerða gegn kynbundnum launamun í opnu bréfi á visir.is. Þar þakkar hann henni að hafa tekið þátt í jafnréttisbaráttu kvenna og kvár og tekur undir orð hennar á Kvennaverkfallsdaginn að tímabært sé að „loka“ kynbundnum launamun sem sé fullkomin tímaskekkja.
„Kæra Katrín. Ég vil taka undir með þér að kynbundinn launamunur er fullkomin tímaskekkja. Reyndar tel ég að við nálgumst þá stund að við förum að kalla kynbundinn launamun launaþjófnað. Það er hægt að hefjast handa við að „loka“ kynbundnum launamun á vinnumarkaði ríkisins strax í dag.“
Þá segir Þórarinn að ákvarðanir hjá ríkinu um launasetningu vanmetinna kvennastétta fari fram í gegnum stofnanasamninga við ríkisstofnanir.
„Þeir [stofnanasamningarnir] eru í sjálfu sér alltaf opnir og lausir. Sem er afar heppilegt vegna þess að þú ætlar að laga þennan ójöfnuð. Það er hægt að gera áhlaup til leiðréttingar núna og það áhlaup er meira að segja hægt að taka í afmörkuðum skrefum. Það er til dæmis hægt að byrja á láglauna kvennastéttunum sem vinna hjá Landspítalanum. Það eina sem þú þarft að gera er að senda orðsendingu til fulltrúa samstarfsnefnda ríkisins innan Landspítalans. Gefa stjórnendum spítalans skýr fyrirmæli um að standa ekki í vegi fyrir réttmætum breytingum og leiðréttingum á launasetningu starfsmanna. Það eigi að lagfæra með bráðaaðgerðum stóru kvennastéttirnar þannig að laun þeirra verði almennt samanburðarhæf við laun annarra sem vinna hjá ríkinu. Það er nefnilega þannig að rannsóknir Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins sýna svart á hvítu að lægstu og verstu launin sem ríkið greiðir eru laun kvennahópa í heilbrigðisgeiranum.“
Greinin birtist fyrst á visir.is