6. nóvember 2023
Vellíðan starfsfólks
Vaxandi meðvitund er á vinnustöðum samtímans um mikilvægi þess að huga að vellíðan starfsfólks.
Fræðslusetrið Starfsmennt heldur nýtt námskeið í mannaauðsmálum fyrir m.a. félagsfólk í Sameyki. Á vef fræðsluseturins segir að vaxandi meðvitund er á vinnustöðum samtímans um mikilvægi þess að huga að vellíðan starfsfólks.
Á námskeiðinu verður fjallað um frá sjónarhóli starfsfólks og vinnustaða hvað felst í vellíðan starfsfólks. Skoðaðir verða helstu þættir sem þarf að huga að til að starfsfólki líði vel í starfi með sérstaka áherslu á jafnvægi og samþættingu vinnu og einkalífs og sveigjanleika í starfi, mikilvægi félagslegra tengsla á vinnustöðum og hlutverk leiðtoga á vinnustöðum. Rýnt verður í af hverju það skiptir máli að huga að vellíðan á vinnustöðum og ábyrgð stjórnenda og starfsfólks í því samhengi.
Leitað verður svara við spurningum á borð við: Hvað er vellíðan í starfi, hvernig stuðlum við að vellíðan og hvað getur starfsfólkið sjálft gert til að vinna að eigin vellíðan? Hvað þurfa stjórnendur að vera meðvitaðir um og hvaða áhrif hafa vinnustaðir á líðan starfsfólks?
Umsjón með námskeiðinu er í höndum Þóru Þorgeirsdóttur, doktor í mannauðsstjórnun.
Hæfniviðmið
- Að þekkja helstu þætti sem stuðla að vellíðan í vinnu.
- Að þekkja leiðir til að vinna að eigin vellíðan í vinnu og/eða vellíðan starfsfólksins síns.
Hægt er að skrá sig á námskeið í mannauðsmálum hér.