17. nóvember 2023
Náttúruhamfarirnar í Grindavík og stríðið í Palestínu rætt á trúnaðarmannaráðsfundi
Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis á trúnaðarmannaráðsfundi .
Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis sagði á fundi á trúnaðarmannaráðs síðdegis í gær að opinberir aðilar hafi kallað eftir því að stéttarfélögin, þar með talið Sameyki, taki höndum saman og leggi sitt af mörkum að hjálpa fólki sem nú er statt í miklum húsnæðisvanda vegna náttúruhamfaranna í Grindavík. Þórarinn varpaði fram þeirri spurningu hvort trúnaðarmannaráð væri ekki örugglega á einu máli um að veita alla þá hjálp sem hægt er að veita því fólki og fjölskyldum þeirra í þeim vanda sem að þeim steðji.
„Grindvíkingar eru nú að ganga í gegnum atburði líkt og þeim sem urðu í gosinu í Vestmannaeyjum 1973. Þetta er verkefni sem við öll verðum að takast á við saman,“ sagði Þórarinn. Trúnaðarmannaráðið samþykkti tillögu formanns með lófaklappi. Formaður Sameykis mun síðan vinna áfram með þá samþykkt á vettvangi heildarsamtakanna og opinberra aðila.
Frá fundi trúnaðarmannaráðs.
Á fundinum fjölluðu hjónin Þorsteinn V. Einarsson og Hulda Tölgyes um aðra og þriðju vaktina. Þar á eftir samþykkti trúnaðarmannaráðið að skipun og umsjón með nefndum félagsins verði færð inn á skrifstofu félagsins en nefndirnar starfa eftir lögum Sameykis þar um.
Hulda Tölgyes og Þorsteinn V. Einarsson.
Einnig komu fram á fundinum athugasemdir um dagskrá sem ákveðin er fyrir trúnaðarmannaráðsfundi félagsins. Kallað var eftir því af fundargestum að trúnaðarmenn gætu skapað samstarfs- og umræðuvettvang þar sem hægt væri að ræða saman um fjölbreytt úrlausnarefni í stað almennrar umræðu um álitamál í samfélaginu. Bent var á brýnt úrlausnarefni, vaktavinnufyrirkomulagið sem samið var um í kjarasamningum og tók gildi í 1. maí 2021 og óánægja ríkir um. Formaður Sameykis sagði að vinna hefur staðið yfir meðal heildarsamtaka opinberra starfsmanna á vaktavinnufyrirkomulaginu sem samið var um í gerð kjarasamninganna. Sameyki jafnt sem önnur stéttarfélög opinberra starfsmanna innan bandalagsins væru vel meðvituð um þá óánægju sem gilti um vaktahvatann.
Eftir kaffihlé fjallaði Magnea Marinósdóttir, sem er alþjóðastjórnmálafræðingur, um Palestínu og Ísrael og stríðið sem á sér stað fyrir botni miðjarðarhafs. Þar hafa margir opinberir starfsmenn tapað lífi sínu við opinber störf eins og sagt var frá af þingi PSI. Þórarinn sagði að það hræðilega ástand sem skapast hefur í Palestínu komi okkur öllum við.
Konur og börn drepin í Palestínu
Magnea sagði að hún hafi starfað á alþjóðlegu sviði hjá UN Women í stríðshrjáðum löndum, fyrst í Afganistan og síðar í Ísrael og hernumdu svæðunum Palestínu. Hún rakti þróun á skiptingu landssvæðis Palestínu og Ísraels frá 1948 til dagsins í dag. Magnea sagði að þegar Ísraelsríki var stofnað voru um 750 þúsund Palestínumenn hraktir á flótta frá heimilum sínum og næstum helmingur lands í Palestínu var fært nýstofnuðu ríki Ísraels. Þá sagði hún að það skipti máli í umræðunni, að það er PLO sem fer með stjórn Palestínu en ekki Hamas.
Alþjóðasamfélagið, hjálparsamtök og mannréttindasamtök kalla eftir tafarlausu mannúðarhléi á árásum Ísraela í Palestínu. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna greiddu 120 ríki atkvæði með tillögu um tafarlaust og langvarandi vopnahlé.
Magnea lýsti því hvernig her Ísraela hefur sprengt upp innviði, lamað fjarskiptabúnað þannig að almenningur getur ekki látið vita af sér, skrúfað fyrir rennandi drykkjarvatn, sprengt upp spítala og hamlað því að hjálpargögn berist til særðra.
Samkvæmt gögnum frá Sameinuðu þjóðunum hafa um 11.000 manns hafa verið drepin á Gaza svæðinu síðan 7. október til dagsins í dag. Þar af um 4500 börn en talið er að um 100 börn séu drepin þar á degi hverjum. Fólkið sem hefur verið drepið hefur ekkert hernaðarlegt gildi. Um er að ræða óbreytta borgara, að mestu konur, ungt fólk og börn sem deyja en talið er að um 2000 börn hafi týnt lífi og séu grafin í rústum Gazaborgar.
Magnea Marinósdóttir.
Magnea sagði að stríð Ísraela væri landvinningastríð enda var það eitt af kosningamálum Netanjahú að auka landtöku í Palestínu. Bæði Gaza svæðið og Vesturbakkinn væru fangabúðir og fólk getur ekki hreyft sig milli landssvæða án þess að þurfa að horfa framan í byssukjaft og vera ógnað af Ísraelsher. Hún sagðist telja óvíst hvernig alþjóðasamfélagið muni bregðast við stöðunni. En þrýstingur hefur aukist á Bandaríkjunum að stöðva þjóðardrápið.
Amnesty International segir að á hernumdu svæðunum hafi Ísraelsk yfirvöld beitt varðhaldi án dómsúrskurðar, sem er ein tegund varðhalds að geðþótta, í auknum mæli gegn palestínsku fólki á hernumda svæðinu á Vesturbakkanum ásamt því að palestínskir fangar hafa sætt ómannúðlegri og niðurlægjandi meðferð frá 7. október síðastliðnum.
Að loknu ítarlegu erindi Magneu Marinósdóttur um ástandið í Palestínu var fundi í trúnaðarmannaráði slitið.