30. nóvember 2023
Spyrja hvort störf kvenna séu minna virði en karla
„Hins vegar er ljóst – og það sáu einnig vottunaraðilarnir – að gallarnir eru margir í vottunarferlinu sjálfu. Á það bæði við um aðferðafræði vottunaraðila auk skorts á regluverki með ráðgjöfum og vottunaraðilum.“ Mynd gerð af gervigreind í Firefly AI.
Ragna Kemp Haraldsdóttir, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir skrifa í nýútkomnu tímariti Sameykis um jafnlaunavottunina og segja að þrátt fyrir markmið stjórnvalda víða um heim að afnema kynbundinn launamun, þá er það einungis hér á landi sem fyrirtækjum og stofnunum, þar sem starfa að jafnaði 25 einstaklingar eða fleiri á ársgrundvelli, hefur verið gert að innleiða jafnlaunastaðal og öðlast jafnlaunavottun.
„Jafnlaunastaðall hefur einkum verið gagnrýndur fyrir skrifræði og kerfisvæðingu við innleiðinguna, auk þess sem takmörkuð trú hefur verið á tilætluðum árangri staðalsins, þar sem aðilar hafi of frjálsar hendur við útfærslu viðmiða og geti hagrætt niðurstöðum ef vilji er fyrir hendi.“
Þá segja þær í greininni að enn þurfi að ryðja burtu kerfislægum hindrunum sem geta stuðlað að kynbundnum launamun, þrátt fyrir innleiðingu jafnlaunastaðals.
„Bent hefur verið á að jafnlaunavottunin geti fest í sessi rök fyrir ólíkum launum sem greidd eru fyrir hefðbundin kvenna- og karlastörf. Þróun, innleiðing og framkvæmd jafnlaunavottunar feli í sér ákveðið frelsi þar sem skipulagsheildir hafi tiltekið rými til útfærslu viðmiða við starfaflokkun og launagreiningu. Þannig sé hægt að setja upp eins marga starfaflokka og hentar hverri skipulagsheild og þar með minnka líkurnar á óleiðréttum launamun við launagreiningu. Mælikvarðar og markmið fyrir forsendum jafnlaunavottunar eru því í höndum stjórnenda sem hana innleiða.“
Lesa má greinina í heild sinni hér.