30. nóvember 2023
Við eigum að hjálpast að
Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis.
„Áætlað er að bygging varnargarða í kringum orkuframleiðslu HS Orku og Bláa lónið kosti almenning 2,5 milljarða króna um leið og eigendur HS Orku hafa greitt sér út að jafnaði 5,5 milljarða á ári.“
Eftir Þórarinn Eyfjörð
Við Íslendingar höfum ávallt lagt okkur alla fram þegar náttúruhamfarir verða hér á landi. Við þjöppum okkur saman og hjálpumst að eins og eðlilegt er að gera. Við treystum því að sú opinbera þjónusta, og innviðirnir sem við höfum sameiginlega byggt upp, sé bæði skjól og vörn fyrir allan almenning. Viðbragðsaðilar, löggæsla, sjúkrahús og sálgæsla taki við og hjálpi okkur ef við erum særð á líkama eða sál. Við viljum að innviðir eins og rafmagn, hitaveita og rennandi drykkjarvatn sé varið og virki svo við getum lifað af á þessu harðbýla landi.
Nú glíma Grindvíkingar við óblíð náttúruöflin á Íslandi. Við sjáum í fjölmiðlum hvernig brugðist er við, fólki komið í skjól og verðmæti sótt eftir bestu getu, um leið og gæta þarf fyllsta öryggis svo ekki verði slys á fólki. Opinberir innviðir í eigu þjóðarinnar eru grunnurinn að góðu samfélagi og mikilvægt er að opinberar stofnanir séu sterkar og geti brugðist við þegar reynir á öryggishlutverk þeirra. Grunninnviðir eru öryggisnet sem þurfa á öllum tímum að vera í eigu þjóðarinnar. Við viljum ekki að hér á landi hagnist einkaaðilar á náttúruhamförum eða að gróðinn sé einkavæddur og skuldin ríkisvædd.
Það er því miður sorgleg staðreynd að HS Orka hf. sem áður var í opinberri eigu var einkavædd. HS Orka er í Svartsengi rétt hjá Grindavík eins og alþjóð veit. Þar er líka Bláa lónið sem notar affall virkjunarinnar til að selja ferðafólki þá upplifun að baða sig í kísilbláu vatni. Hagnaðurinn af rekstri Bláa lónsins er gríðarlegur og eigendurnir hafa verið lunknir með hjálp stjórnmálafólks að ríkisvæða skuldir fyrirtækisins þegar það þáði hlutabótaleiðina og sagði upp starfsfólki – og nú að láta ríkissjóð og almenning greiða fyrir varnargarða. Á sama tíma greiðir það út arð til eigenda sinna fyrir upphæðir sem telja má í tugum milljarða – og hefur gert um langt skeið.
Í maí 2008 voru samþykkt á Alþingi lög um breytingu á auðlinda- og orkusviði. Samkvæmt lögunum bar Hitaveitu Suðurnesja hf., sem var í opinberri eigu, að aðskilja formlega í sérstökum félögum einkaleyfisstarfsemi og samkeppnisstarfsemi. Hitaveitu Suðurnesja hf. var svo skipt upp í tvö sjálfstæð fyrirtæki, HS Veitur hf. sem annast dreifingu á rafmagni, hitaveitu og ferskvatni og HS Orku hf. sem annast orkuframleiðslu og raforkusölu. Lögformlegur aðskilnaður HS Orku hf. og HS Veitna hf. varð svo staðreynd sumarið 2008. Þannig tókst stjórnvöldum að einkavæða nauðsynlega innviði eins og raforkuframleiðslu, sem krafist er nú að almenningur verji fyrir náttúruöflunum – en ekki að fyrirtækið greiði sjálft fyrir björgunina. Nú eru eigendur fyrirtækisins tveir; Jarðvarmi slhf., sem er í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða og á helming hlutafjár á móti breska sjóðafyrirtækinu Ancala Partners LLP.
Á síðustu sex árum hafa eigendur HS Orku greitt sér um 33 milljarða króna í hagnað af raforkusölu fyrirtækisins. Áætlað er að bygging varnargarða í kringum orkuframleiðslu HS Orku og Bláa lónið kosti almenning 2,5 milljarða króna um leið og eigendur HS Orku hafa greitt sér út að jafnaði 5,5 milljarða á ári. Í ljósi þeirra hörmunga sem nú dynja yfir er tækifæri til að taka upp umræðuna um lögfestingu þess að almenningur eigi klárt og skýrt alla innviði og allar náttúruauðlindir landsins og njóti arðsins af þeim. Það er skýr krafa almennings að allur kostnaður og stuðningur, sem til fellur á hið opinbera við að verja rekstur einkarekinna fyrirtækja, verði endurgreiddur áður en arðgreiðslur hefjast að nýju hjá viðkomandi fyrirtækjum. Endurgreiðslukrafan á að vera ótímasett.
Við verðum að hætta að afhenda innviði okkar einkaaðilum og einkavæða hagnaðinn en ríkisvæða skuldirnar. Þjóðin tapar á þessu fyrirkomulagi og við þurfum fyrst og fremst að verja innviði þjóðarinnar og opinbera þjónustu. Sterkir innviðir í almannaeigu eru öryggisnetið sem við þurfum á hverjum tíma til að hjálpast að þegar gefur á bátinn.
Höfundur er formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu og 1. varaformaður BSRB.