1. desember 2023
Einkavæðingarstefna Reykjavíkurborgar á opinberri þjónustu
Reykjavíkurborg sinnir og rekur fjölbreytta opinbera þjónustu í grunnkerfum samfélagsins, meðal annars heilbrigðisþjónustu, menntaþjónustu, ummönnunarþjónustu og opinberan rekstur eldhúsa í skólum og í leikskólum borgarinnar. Þetta er opinber þjónusta sem almenningur reiðir sig á og því skiptir miklu máli að hún lúti markmiðum um opinbera þjónustu en ekki lögmálum um arðsemi og hagnað til eigenda sinna eins og gildir á hinum „frjálsa markaði“.
Hagnaðardrifin starfssemi skilgreind sem græðgi
Nú nýverið leitaði til Sameykis félagsmaður sem sagt var upp starfi sínu vegna stefnu Reykjavíkurborgar að einkavæða grunnþjónustuna og útvista opinberum störfum til einkaaðila. Slík stefna er eins og aðrar einkavæðingarstefnur; þær taka hvorki tillit til þjónustunnar né starfsfólksins, heldur til hagnaðar af starfseminni. Hagnaðardrifin starfsemi er skilgreind sem græðgi: „Græðgi fyrirtækja, samkvæmt skilgreiningu, er þegar fyrirtæki velur að leggja áherslu á að auka hagnað á þann hátt sem skaðar starfsfólk, neytendur og umhverfið. Það gerist þegar að græða peninga verður eina markmiðið og samfélagsleg ábyrgð er hunsuð,“ segir í grein um fyrirtækjagræðgi eftir Edmund Bradley hjá CLSA, sjálfstæðri rannsóknastofnun um viðskipti á alheimsvísu.
Geðþóttaákvörðun að útvista opinberum störfum
Þegar Reykjavíkurborg kallaði til slíkt fyrirtæki svo hægt væri að losna undan þeirri ábyrgð að reka eldhús í leikskóla í borginni var strax hafist handa við að segja upp starfsfólki. Það þekkist vel að þegar opinber starfsemi er einkavædd þá hækkar verð á þjónustunni og gæði minnka, auk þess sem eftirlit með réttindum, kaupi og kjörum starfsfólks hverfur sökum þess að slík fyrirtæki ráða til sín verktaka eins og nú er í tísku að kalla „giggara“ og skrifað hefur verið áður um í tímarit Sameykis.
Sameyki sendi fyrirspurn til Mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar til að leita svara við hvort það væri opinber stefna borgarinnar að útvista störfum í eldhúsum í leikskólum borgarinnar, og í öðru lagi hvort það væri stefna Reykjavíkurborgar á sviði mannauðs- og starfsumhverfis að einkavæða opinbera þjónustu.
Mannauðs- og starfsumhverfissvið hefur yfirumsjón með mannauðsmálum Reykjavíkurborgar og styður við stefnu og megináherslur borgaryfirvalda. Því vaknar sú spurning hvort það sé opinber stefna að einkavæða opinbera þjónustu í Reykjavíkurborg. Ef ekki, ræður þá geðþóttaákvörðun ferðinni við að útvista opinberum störfum hjá Reykjavíkurborg?
Afneitar einkavæðinarstefnu og útvistun starfa
Í svari Mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar til Sameykis kemur fram að Reykjavíkurborg styðji ekki einkavæðingu né útvistun starfa en sé hins vegar ekki á móti því ef frumkvæðið að því komi frá stjórnendum. Þá segir í svarinu að það sé flókið utanumhald á matseðlum fyrir fjölbreytta hópa og því sé ástæða til að einkavæða þjónustuna. Svo virðist á svörum sviðsstjóra Mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar að hún sé ósammála sjálfri sér í svari til stéttarfélagsins.
„Varðandi fyrirspurn stéttarfélagsins um hvort það sé stefna Reykjavíkurborgar að útvista störfum í eldhúsum í leikskólum borgarinnar er því til að svara að svo er ekki. Hins vegar hefur átt sér stað þróun í þá átt sem er tilkomin að frumkvæði stjórnenda leik- og grunnskóla sem hafa séð þörf fyrir að endurskipuleggja rekstur á sínum starfsstað með þessum hætti. Þar hefur verið horft til t.d. áhrifa á skipulag daglegs starfs, utanumhald af hálfu starfsstaðar hvað varðar mönnun vegna forfalla, pöntun aðfanga, lager fyrir matvöru og umsjón með réttri geymslu matvæla. Aðkeypt mötuneytisþjónusta felur einnig í sér þjónustu við samsetningu matseðla sem tekur mið af manneldismarkmiðum, matarstefnu og sérþörfum þegar við á, sem er oft á tíðum flókið utanumhald á starfsstöðum sviðsins.
Hvað varðar þá spurningu um hvort það sé stefna Reykjavíkurborgar að einkavæða opinbera þjónustu er svarið við því neitandi. Svo sem að framan greinir hafa stjórnendur leik- og grunnskóla sjálfir tekið ákvarðanir um útvistun mötuneyta vegna aðstæðna á þeirra starfsstað.“
Eins og lesendur hafa gert sér ljóst virðist því stefna Reykjavíkurborgar vera að útvista störfum og einkavæða opinbera þjónustu. Ástæða er til að staldra hér við og velta fyrir sér hvort nú sé svo komið að einstaka starfsmenn Reykjavíkurborgar geti ákveðið hvort einkavæða skuli opinbera þjónustu.