1. desember 2023
Þjóðarsátt og kjarasamningar meðal umfjöllunarefnis á félagsfundi á Akranesi
Á fundi með félagsfólki í Sameyki á Akranesi.
Morgunverðarfundir með félagsfólki halda áfram. Í morgun heimsótti Þórarinn Eyfjörð félagsfólk á Akranesi. Umræðuefnið á fundinum var m.a. réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, kjarasamningar, kjarasamningagerð og launasetning. Þórarinn fór yfir hvernig samsetning félagsfólks er eftir uppruna í félaginu, starfsemi skrifstofunnar og þjónustu sjóða og styrkja sem félagsfólk nýtur. Í lok fundarins var fjallað og spjallað um orlofshúsamál félagsins.
Pólverjar fjölmennastir og Danir næstfjölmennastir
Þórarinn sagði að fólk af erlendum uppruna sé 8,8 prósent af öllu félagsfólki í Sameyki. félagsfólk af pólskum uppruna er langstærstur, um 28 prósent allra en alls eru um 1000 manns í félaginu af erlendum uppruna. Þórarinn sagði að það kæmi á óvart að mesti fjöldi útlendra í félaginu á eftir Pólverjum væru Danir sem telja 8,7 prósent alls félagsfólks, þar á eftir kemur fólk af uppruna í Asíu.
Þórarinn nefndi eina ástæðu þess að ekki væri fleira fólk af útlendum uppruna í félaginu væri vegna samsetningu starfa og krafna ríkis og sveitarfélaga. Þar er krafist t.d. góðrar íslenskuáttu. Þá fór Þórarinn í gegnum launamyndunarkerfin sem eru þrjú talsins; stofnanasamningar, fyrirtæki í almannaþjónustu og starfsmatskerfið.
Óvissa, óstöðugleiki og rauð strik
Formaður Sameykis rifjaði upp síðustu heildarkjarasamninga og sagði að ef staða efnahagsmála væru ekki í svo mikilli óvissu hefði örugglega verið samið til lengri tíma. Í næstu kjarasamningum yrði að vera svokölluð rauð strik þar sem hægt væri að segja upp kjarasamningi ef t.d. stefna stjórnvalda í efnahagsmálum gengi ekki eftir. Í komandi kjarasamningum þyrfti að líta til þess ástands sem nú ríkir í heiminum sem getur haft áhrif hér á landi. Þá sagði hann nauðsynlegt að líta til þess að gera þjóðarsátt á Íslandi, ekki síst vegna þess að ójöfnuður í samfélaginu fer vaxandi og óstöðugleiki er ríkjandi í efnahagsmálum þjóðarinnar.
Mikil vinna eftir vegna styttingu vinnuvikunnar
Félagsfólk sem tók til máls á fundinum sagði að mikið væri rætt á kaffistofunni stytting vinnuvikunnar. Það væri ósamræmi með útfærsluna og svo virtist vera sem stjórnir sveitarfélaganna og stofnana ríkisins fylgja ekki ákvæðum í samkomulaginu um styttingu vinnuvikunnar og algengt að stjórnendur vinnustaðanna þekktu ekki nægilega vel samkomulagið um styttingu vinnuvikunnar.
Þórarinn sagði að mikil vinna væri eftir vegna styttingu vinnuvikunnar. Þar bæri helst að líta til vaktavinnuhvatans og hvernig stjórnendur vinnustaðanna nálgast verkefnið sem þyrfti að vinna áfram með. Hann sagði að það hefði verið misskilningur t.d. að leikskólar og fleiri slíkir vinnustaðir sem veittu svipaða almannaþjónustu gætu stytt opnunartíma þeirra.
Samkomulagið fjallaði um að fjármagn ætti að fylgja frá sveitarfélögum og ríki m.a. til að ráða starfsfólk. Um væri að ræða stóra kerfisbreytingu á vinnumarkaðnum sem allir aðilar voru meðvitaðir um að fjármagn myndi fylgja með sem svo ekki hafi skilað sér. Hann sagði að margt hafi ekki gengið eftir varðandi styttingu vinnuvikunnar því að þjónusta mætti ekki skerðast og það yrði að fylgja málum fastar eftir og ræða saman um fyrir næstu kjarasamningagerð.
Orlofshús og gæludýr
Að lokum spurði félagsfólk um orlofsmál Sameykis og spratt upp umræða um að skortur væri á orlofshúsum sem leyfa gæludýr því æ fleiri eiga gæludýr nú en áður. Þórarinn sagði að félagið væri alltaf að skoða þessi mál. Þeim hafi fjölgað orlofshúsunum sem leyfa gæludýr og nú væru alls sex orlofshús af því tagi sem leyfa gæludýr; tvö í Húsafelli, eitt í Stykkishólmi, í nýuppgerðu orlofshúsi á Arnarstapa. Þá sé nýbúið að gera upp Hólasetur í Biskupstungum sem leyfir gæludýr og svo Akrasel í Grímsnesi þar sem gæludýr eru velkomin.
Morgunverðafundirnir halda áfram og næst mun formaður Sameykis heimsækja Ísafjörð. Félagsfólk sem óskar eftir að komast á morgunverðarfund getur sett sig í samband við Jakobínu Þórðardóttur, deildarstjóra félagsdeildar, með tölvupósti á netfangið jakobina@sameyki.is