Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

4. desember 2023

Konur kröfðust jafnréttis á sögulegum baráttufundi

Frá Kvennaverkfallinu 24. október. Ljósmyndir: Heiðrún Fivelstad

„Þetta hugarfar er ekki einungis karllægt heldur líka kvenlægt því konur jafnt sem karlar aðhyllast hugmyndafræðina sem skotið hefur rótum í stjórnmálum.“

Eftir Jóhönnu Þórdórsdóttur

Það er merkilegt að verða vitni að sögulegum atburði eða viðburði eins og Kvennaverkfallinu 24. október sl. þegar um 100 þúsund kynsystra minna og kvára komu saman á Arnarhóli til að krefjast jafnréttis. Um allt land gerðist það sama, konur komu saman á ráðhústorgum eða fyrir framan bæjarskrifstofur og kröfðust þess að kynbundið ofbeldi yrði stöðvað strax, og að kynbundinn launamunur heyrði sögunni til. WOMAN RIGHTS - ARE - HUMAN RIGHTS, JAFNRÉTTI NÚNA!, KALLARÐU ÞETTA RÉTTLÆTI? og HLUSTIÐ! var meðal þeirra slagorða sem haldið var á lofti.

Ráðherrar forsætis og fjármála beiti sér í baráttunni
Ekki er annað hægt en að forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, báðar konur, beiti sér í sínum ráðuneytum fyrir jafnrétti og að kynbundnum launamun verði eytt og beiti ekki fyrir sig orðasalati um að þetta sé svo flókið að leysa. Katrín var sjálf að krefjast þess sama og aðrar konur víða um land kröfðust jafnréttis. Hvað ætli standi henni fyrir þrifum? Stefna Þórdísar í embætti fjármála- og efnahagsráðherra er að segja konum upp sem sinna störfum í grunnþjónustunni og leggja mikið á sig fyrir lág laun. Það eru konurnar í framlínustörfum sem missa vinnuna vegna niðurskurðar og uppsagna. Í umsögn BSRB segir um niðurskurð ríkisstjórnarinnar í frumvarpi til fjárlaga 2024: „Alls nemur niðurskurðurinn um 8 milljörðum króna í frestun framkvæmda og um 9,6 milljörðum króna í rekstrarútgjöldum sem á fyrst og fremst að nást með uppsögnum og starfsmannaveltu. ... Í jafnréttismati frumvarpsins kemur fram að lækkun launakostnaðar ríkisins mun bitna á konum fremur en körlum enda eru þær um tveir þriðju hlutar starfsfólks ríkisins. Konur eru einnig í meirihluta þeirra starfa sem mun fækka vegna stafvæðingar.“

Á meðan forsætisráðherra fór að glíma við önnur erfið mál ríkisins, eða ríkisstjórnarsamstarfsins, dagana á eftir fögnuðu konur og ákváðu að þessa dags skyldi ekki verða minnst sem einhvers hátíðisdags kvenna, heldur baráttudags fyrir jafnrétti og réttlæti, sama af hvaða hvaða kyni, uppruna, hörundslit, stöðu, stétt, þjóðerni eða trúar fólk er. „Við krefjumst jafnréttis og réttlætis meðal allra kvenna og kyns,“ var sagt á baráttufundinum og rétt að taka undir það.

 

Hvers vegna ættu konur að vera á lægri launum er karlar?
Fyrir því er ekki nokkur heilbrigð ástæða, heldur óheilbrigð viðhorf sem liggja í aldagömlum skólpræsum hugmyndakerfis um að karlar séu æðri konum og nefnist hugtakið feðraveldi. Uppruni orðsins kemur úr þýðingunni patríarki sem kemur úr grísku og samsett úr orðunum faðir og arkon, sem mætti þýða sem „leiðtogi“, „höfðingi“, og/eða „konungur“. Patríarki þýðir því feðraveldi og það er veldi notað um samfélagsgerðina sem á rætur sínar í því ættarveldi sem karlar, forfeður okkar, stjórnuðu og er óumdeilt. Orðið feðraveldi er því hugtak um stjórnarfar og samfélag þar sem gömul kynbundin viðhorf eru ríkjandi sem kúga konur og aðra sem ógna samfélagsgerð sem mótuð hefur verið af körlum. Þeirri samfélagsgerð hafa konur eðlilega barist gegn. Þetta hugarfar er ekki einungis karllægt heldur líka kvenlægt því konur jafnt sem karlar aðhyllast hugmyndafræðina sem skotið hefur rótum í stjórnmálum.

Vera má að konur jafnt sem karlar hafi enga hugmynd um að þau tala sem einni röddu með feðraveldinu sem einmitt gengur út á að halda konum niðri. Feðraveldið er nefnilega nátengt eldri viðhorfum sem einkennast af valdi sem fylgir nýlenduhugsun og kapítalískri hugmyndafræði sem konur hafa einnig fylgt. Hugmyndafræðin inniheldur þessar stefnur sem móta samfélagið, hvort sem um er að ræða karl sem heldur um ríkiskassann eða konu sem það gerir.

Við skulum láta þennan einstaka sögulega baráttufund marka spor í stéttabaráttuna. Áfram stelpur!

Höfundur er fræðslustjóri Sameykis.