6. desember 2023
Velferðakerfið hefur brugðist
Sonja Ýr, formaður BSRB, Alma Ýr, formaður ÖBÍ, og Kristín Heba, framkvæmdastýra Vörðu- Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins.
Svört skýrsla um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi var kynnt í húsakynnum Mannréttindahússins kl. 10:00 í morgun. Rannsóknin var gerð af Vörðu - Rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins og ÖBÍ réttindasamtaka. Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdarstýra Vörðu, kynnti helstu niðurstöður en greining Vörðu er umfangsmikil og nær til margra þátta. Lokaorðum sínum beindi hún til stjórnvalda og spurði hversu slæmt ástandið þyrfti eiginlega að verða til að stjórnmálamenn brygðust við sem skyldi og tækju til hendinni í málaflokknum.
Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastýra Vörðu, segir niðurstöðurnar sláandi. Þrátt fyrir að Ísland standi vel á öllum alþjóðlegum mælikvörðum um efnahag og jöfnuð, ríkir hér kerfisbundinn vandi þegar kemur að stöðu og lífsskilyrðum fatlaðs fólks á Íslandi. Stór hluti fatlaðs fólks hér á landi býr við sárafátækt og lífsskilyrði lífeyristaka eru töluvert verri en launafólks. Tæplega sjö af hverjum tíu geta ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að efna til skuldar og meira en helmingur metur fjárhagsstöðu sína verri nú en fyrir ári síðan. Staða einhleypra foreldra er sérstaklega alvarleg.
„Niðurstöðurnar eru þær að fjárhagsstaða þeirra sem eru á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk er mjög slæm á öllum mælikvörðum. Einhleypir foreldrar standa þarna sérstaklega illa. Þá er andleg líðan slæm hjá gríðarlega stóru hlutfalli hópsins, mikil félagsleg einangrun. Fólk hefur þurft að neita sér um heilbrigðisþjónustu. Fatlað fólk hér á landi stendur ekki við sama borð og aðrir í samfélaginu. Fólkið hefur ekki sömu tækifæri til mannsæmandi lífs,“ sagði Kristín Heba, framkvæmdastýra Vörðu, alvarleg í fasi.
Þá sagði Kristín Heba að ekkert gat undirbúið rannsakendur fyrir það hve niðurstöðurnar voru slæmar fyrir þennan hóp eins og raun ber vitni. Hún sagði að stofnunin hafi farið ítrekað yfir þær sökum þess hvað þær voru sláandi. Það hafi verið dapurlegt að sjá t.d. niðurstöður um að þriðjungur einhleypra foreldra í hópnum býr við sárafátækt.
Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ, sagði að ráðamenn þjóðarinnar verði að bregðast við og þeir þurfi að taka mark á þessum niðurstöðum, taka þær alvarlega og vinna með þær. Bregðast þurfi strax við með því að auka samráð og virkja samtal um niðurstöðurnar.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, sagði að velferðarkerfið hafa brugðist þessum hópi. Niðurstöðurnar leiða í ljós alvarlega stöðu fatlaðs fólks. Hún sagði að ekki verði gerð nein þjóðarsátt nema að þessir hópar sem einna verst hafa það í íslensku þjóðfélagi verði teknir með.
„Þetta er saga velferðarkerfis sem hefur brugðist og það þar aðgerðir til að breyta því. Skilvirkasta leiðin er í gegnum barnabótakerfið og húsnæðisstuðning. Það verður ekki nein þjóðarsátt í komandi kjarasamningum nema allir hópar verða teknir með“ sagði Sonja Ýr á kynningarfundinum.
Lesa má skýrslu Vörðu hér.
Hægt er að horfa á kynningarfundinn íheild sinni í spilaranum hér að neðan.