13. desember 2023
Virkar jafnlaunavottunin eins og hún á að gera?
Jafnlaunastaðallinn er lögfestur í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna en kynbundinn launamunur hefur þrátt fyrir lögin ekki kvatt fyrir fullt og allt.
„Við þurfum alvöru kerfi sem nýtist við mat á virði starfa óháð kyni og það kerfi þarf bæði að vera nýtanlegt innan einstakra stofnana og fyrirtækja, en einnig þvert á vinnumarkaðinn.“
Eftir Þórarin Eyfjörð
Ragna Kemp Haraldsdóttir, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir skrifuðu athyglisverða grein í síðasta tölublað Tímarits Sameykis sem kom út nýverið. Þar rekja þær feril jafnlaunavottunar sem var lögfest árið 2017. Höfundar greinarinnar spyrja hvort störf kvenna séu minna virði en karla. Þær segja í greininni að ýmsar kenningar hafi verið settar fram um orsakir kynbundins vinnumarkaðar og kynbundinna launa, sem fyrirfinnist þrátt fyrir tilraunir stjórnvalda og fleiri aðila til að afnema slíkt með lagasetningu og fleiri aðgerðum.
Í greininni benda þær á að með aukinni atvinnuþátttöku kvenna síðustu áratugina þyki æ ljósara að ójöfn staða á vinnumarkaði er ekki afsprengi einstaklingsbundinna aðstæðna, hvað þá áhuga- og reynsluleysis kvenna, heldur sé hefðbundnu skipulagi atvinnu- og fjölskyldulífs um að kenna.
Ýmsar skoðanir hafa verið á aðferð jafnlaunavottunar innan stéttar- og verkalýðsfélaga. Þar hefur helst verið gagnrýnt að mögulegt sé að notast við viðmiðunarþætti sem byggja á huglægu mati og með því gefist færi á réttlætingu á kynbundnum launamun. Áhyggjur af þessum möguleika staðfesta þó ekki að stofnanir og stjórnendur séu að misnota jafnlaunakerfið, en rótgróið og hefðardulið misrétti í launasetningu kvennastarfa verður ekki upprætt nema við útilokum huglægt mat á virði starfa. Gleymum ekki að ólíkt virðismat kvenna- og karlastarfa byggir á hefðbundnum fordómum og smættun á kvennastörfum. Með öðrum orðum að vinnuframlag kvenna sé minna virði en vinnuframlag karla.
Aftur að grein Rögnu, Guðbjargar Lindu og Guðbjargar Andreu. Þær skrifa: „Enn þarf að ryðja burt kerfislægum hindrunum sem geta stuðlað að kynbundnum launamun, þrátt fyrir innleiðingu jafnlaunastaðals. Bent hefur verið á að jafnlaunavottunin geti fest í sessi rök fyrir ólíkum launum sem greidd eru fyrir hefðbundin kvenna- og karlastörf. Þróun, innleiðing og framkvæmd jafnlaunavottunar feli í sér ákveðið frelsi þar sem skipulagsheildir hafi tiltekið rými til útfærslu viðmiða við starfaflokkun og launagreiningu. Þannig sé hægt að setja upp eins marga starfaflokka og hentar hverri skipulagsheild og þar með minnka líkurnar á óleiðréttum launamun við launagreiningu.“
Fyrir nokkrum árum skrifaði höfundur þessarar greinar meistararitgerð sem ber heitið Af hverju gengur svo hægt að uppræta kynbundinn launamun?. Í ritgerðinni er litið til lagasetningar og launakannana gegnum árin og gerð tilraun til að svara spurningunni hér að ofan. Meðal annars er litið til könnunar sem ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks lét gera árið 2009 og bar heitið Mat á kynbundnum launamun – niðurstöður könnunar meðal forstöðumanna á ýmsu er lýtur að stjórnun starfsmannamála, jafnrétti og launamun (Fjármálaráðuneytið, 2009). Ein spurningin í þeirri könnun var um hvar forstöðumenn teldu að launamunur kynjanna yrði til hjá ríkinu. Langflestir forstöðumanna, eða 65%, voru sammála eða mjög sammála því að launamunur hjá ríkinu yrði til við ákvörðun annarra launa en grunnlauna. Þegar rætt er um önnur laun þá er átt við aukagreiðslur, svo sem viðbótarlaunaflokka, hlunnindi, fasta (eða óunna) yfirvinnu og aðrar sporslur.
Launamunur kynjanna verður til við ákvörðun annarra launa
Svör forstöðumanna ríkisstofnana:
Kökuritin sýna okkur að meirihluti forstöðumanna ríkisstofnana segja að kynbundið virðismat starfa og kynbundin launamunur verði til við skrifborð þeirra.
Hannibal Valdimarsson þingmaður og ráðherra (1903–1991) sagði á sínum tíma: „Vinnuafl konunnar í þjónustu þjóðfélagsins, þjóðfélagsstofnana, er ekki metið á sama mælikvarða og vinna starfsbróðurins. Til þess að kveða það ranglæti niður þarf lagasetningar. Það er alveg greinilegt, að það gerist ekki af sjálfu sér, og það gerist því miður jafnvel ekki við hörðustu baráttu hinna sterkustu samtaka í landinu, þau áorka því ekki, eru búin að fást við þetta verkefni árum og áratugum saman og hafa ekki náð marki, eru í rauninni tiltölulega litlu nær. Yfirleitt má segja, að laun kvenna séu frá 2/3 hlutum, þar sem allra bezt er, upp í 3/4 hluta af kaupi karlmannanna.“ Þetta var sagt árið 1953, eða fyrir 70 árum.
Jafnlaunastaðallinn er lögfestur í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna en kynbundinn launamunur hefur þrátt fyrir lögin ekki kvatt fyrir fullt og allt. Við sjáum núna að þörf er á skilvirkari leiðum, beittari verkfærum og einfaldari verkáætlun til að ná betri árangri. Þar er ekki nóg að reyna að lögbinda jafnlaunastaðal sem eftir atvikum getur verið matskenndur. Við þurfum alvöru kerfi sem nýtist við mat á virði starfa óháð kyni og það kerfi þarf bæði að vera nýtanlegt innan einstakra stofnana og fyrirtækja, en einnig þvert á vinnumarkaðinn. Við vitum að kynbundinn launamunur birtist sterkast í kynbundnum vinnumarkaði. Ef það er vilji til að leiðrétta þann mun þá finnum við rétta verkfærið til þess. Það er löngu kominn tími til.
Höfundur er formaður Sameykis og 1. varaformaður BSRB.
Greinin birtist fyrst á vef Heimildarinnar.