5. janúar 2024
Engin breiðfylking um þjóðarsátt án opinberra starfsmanna
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis. Ljósmynd/BIG
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis sagði í hádegisfréttum ríkisútvarpssins í dag að tómt mál væri að tala um breiðfylkingu og þjóðarsátt á vinnumarkaði án aðkomu opinbers starfsfólks á vinnumarkaði og fulltrúa hagsmunahópa öryrkja og aldraðra. Mögulegur samningur SA og ASÍ mun ekki leggja línur um framhaldið sagði hann í samtali við Hauk Holm.
„Eftir því sem ég best veit og hefur komið fram í fjölmiðlum þá eru þarna tiltekin stéttarfélög innan ASÍ að ræða við Samtök atvinnulífsins,“ segir Þórarinn um kjaraviðræður Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar verkalýðsfélaga innan ASÍ.
„Þetta er nú ekki meiri breiðfylking en svo að þarna er ekki einu sinni allt ASÍ á bak við. Hvað þá einhver önnur félög eða bandalög,“ sagði Þórarinn.
Hann sagðist vera að tala um bandalög á opinberum vinnumarkaði; BSRB, BHM, KÍ, hjúkrunarfræðingafélagið og önnur opinber stéttarfélög sem semja við hið opinbera. Þórarinn sagði að ekki hafi átt sér neitt samtal við formenn stéttarfélaga á opinberum vinnumarkaði svo hann viti til. Þá taldi Þórarinn að ekki hafi verið rætt við Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg eða önnur hagsmunasamtök eins og öryrkjabandalagið eða samtök aldraðra.
Að lokum sagði formaður Sameykis að þær viðræður sem nú eru í gangi leggi ekki línurnar fyrir alla og sagðist eiga erfitt með að skilja hvað farið hefur fram í viðræðum milli SA og verkalýðsafélaganna.
Hægt er að lesa viðtalið við formann Sameykis hér.