Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

10. janúar 2024

„Forsenduákvæði algjör grundvöllur í næstu kjarasamningum“

Gestir Pallborðsins ásamt þáttastjórnanda. Ljósmynd/visir.is

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, var gestur í þættinum Pallborðið á visir.is ásamt Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR og Helga Péturssyni, formanni Landssambands eldri borgara. Rætt var um viðræður breiðfylkingar stéttarfélaga á almenna vinnumarkaðnum og Samtaka atvinnulífsins og ríkisins.

„Ef við ætlum að tala um þjóðarsátt á breiðum grunni þurfa fleiri að koma að málum. Aktív aðkoma ríkisvaldsins þarf einnig að koma að í þeim erfiðu aðstæðum sem almenningur er komin í,“ sagði formaður Sameykis.

Helgi Pétursson, formaður LEB, sagði að eldra fólk hafi verið í stéttarfélögum áður en það fór á eftirlaun og því finnist það ekki njóta þess nú, og um leið sé lífeyrir kominn langt niður fyrir lágmarkslaun.

„Það var soldið bratt í byrjun að kalla þetta þjóðarsátt, það voru ekki mín orð. Stóra málið er að kjarabætur þurrkist ekki að loknum kjarasamningum vegna hækkana á nauðsynjavörum og opinberum gjöldum,“ sagði Ragnar Þór.

Þórarinn sagðist halda að það væri ákjósanlegra umræðan um þjóðarsátt hafi átt sér stað að breiðari grunni í upphafi. „Við erum með risamál undir og ef við eigum að tala um þjóðarsátt þurfa fleiri aðilar að vera með í því samtali. Það eru stórir hópar eins og öryrkjar og aldraðir. Þjónusta við aldraða eru í svo miklum molum að fjölskyldur þurfa að taka sér orlof til að hugsa um sína aðstandendur,“ sagði hann. Hann sagði að þurfi að ræða stöðu hjúkrunarheimila, auðlindamál og fleiri stór hagsmunamál sem varðar þjóðina alla. „Við hjá BSRB og ASÍ höfum alltaf átt gott samstarf og ég efa það ekki að við getum tekið utan verkefnið, sagði Þórarinn.

Ragnar Þór sagði að staðan væri erfið því ef að stjórnin springi á næstunni væri komin upp óvissa með viðræðurnar. „Staðan er erfið ef stjórnin springur. Það er algjörlega nauðsynlegt að hafa forsenduákvæði í samningunum. Forsenduákvæði er algjör grundvöllur fyrir því að fara í þessa vegferð í nýjum kjarasamningum. Önnur forsenda er svo að vaxtastigið verði lækkað mjög bratt. Ef sú forsenda bregst þá eru forsendur kjarasamnings brostnar. Það er mjög einfaldlega þannig að forsenduákvæðin þurfa að vera mjög stíf. Ef fyrirtækin taka ekki þátt í þessari vegferð og þau hækka verð á vöru og þjónustu verður þeim refsað grimmilega. Það er óumsemjanlegt ef fyrirtækin í landinu virða ekki kjarasamninga,“ sagðir Ragnar Þór.

Hægt er að horfa á Pallborðið á visir.is hér.