9. febrúar 2024
Máttur samstöðunnar
Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis. Ljósmynd/BIG
„Það er mikið áhyggjuefni að okkar samfélag skuli láta það gerast að þessi hópur sé í raun dæmdur að stórum hluta til efnahagslegrar og félagslegrar fátæktar. Í því efni er það sérlega alvarlegt að börn einstæðra foreldra séu skilin eftir í aðstæðum þar sem þau hafa ekki möguleika á að vera þátttakendur í samfélagslegum þroska á sínu viðkvæmasta aldursskeiði.“
Eftir Þórarin Eyfjörð
Oft er haft á orði að við Íslendingar kunnum að standa saman þegar á reynir. Við höfum fjölmörg dæmi um áföll og náttúruhamfarir þar sem þjóðin hefur þjappað sér saman og sýnt hug sinn í verki. Þessi samheldni lítillar þjóðar þegar á reynir er eflaust birtingarmynd á lærdómi kynslóðanna. Við sem núna lifum getur sjálfsagt ekki ímyndað okkur þá erfiðleika sem fylgdu því að berjast á öldum áður fyrir lífi sínu og sinna á löngum myrkum vetrarmánuðum. Við þekkjum úr sögunni baráttu alþýðunnar við hungur, vosbúð, kulda og sjúk-dóma. Ég spurði eitt sinn gamlan bónda á Ströndum hvort satt væri að allir í hans sveit hefðu verið sósíalistar. Hann svaraði að hann héldi það nú. Það hefði ekki verið um neitt annað að ræða. Til að komast af á þessu harðbýla landsvæði þá hefði verið nauðsynlegt að standa saman. Annað hefði ekki verið í boði til að komast af.
Nú þarf íslensk þjóð að standa saman sem einn maður við að koma heilu bæjarfélagi til hjálpar. Grindvíkingar mega ekki undir neinum kringumstæðum fá á tilfinninguna að ekki hafi verið allt gert til að aðstoða þá við að ná lendingu í tilveru þeirra, hvort sem breytingar verða til frambúðar hjá fjölskyldum og einstaklingum sem þar hafa búið eða ekki. Þar eru ekki aðeins eignir undir heldur verður án efa nauðsynlegt að tryggja félagslega stöðu íbúanna og alla þá aðstoð sem þarf til að fólk nái ásættanlegri stöðu í líf sitt að nýju.
Það vita allir að þær aðgerðir sem þarf til í þessu verkefni núna kalla á mikil en sanngjörn útgjöld. Þau útgjöld verður að fjármagna sérstaklega og án þess að ráðamenn tali niður önnur samfélagsleg verkefni og hengi hatt sinn á að annað sé ekki hægt að gera í ríkisfjármálum vegna þess að það sé verið að aðstoða Grindvíkinga. Með slíku tali er verið að kenna Grindvíkingum um að eðlileg samfélagsleg þróun geti ekki átt sér stað. Það má aldrei gera Grindvíkinga að blórabögglum vegna aðgerða eða aðgerðaleysis stjórnvalda. Við eigum að standa þétt saman í verkefninu þannig að fólk finni fyrir samstöðunni og geti verið þess fullvisst að samfélagið allt stendur að baki þeim.
Síðan þarf að sýna samstöðu á fleiri sviðum samfélagsins. Í tímariti Sameykis skrifar Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastýra Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, um lífsskilyrði launafólks og fólks á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk. Rannsóknir stofnunarinnar sýna svo ekki verður um villst að þessi hópur samfélagsins hefur verið skilinn eftir í þeirri framfaravegferð sem við höfum verið á síðasta árhundraðið. Það er mikið áhyggjuefni að okkar samfélag skuli láta það gerast að þessi hópur sé í raun dæmdur að stórum hluta til efnahagslegrar og félagslegrar fátæktar. Í því efni er það sérlega alvarlegt að börn einstæðra foreldra séu skilin eftir í aðstæðum þar sem þau hafa ekki möguleika á að vera þátttakendur í samfélagslegum þroska á sínu viðkvæmasta aldursskeiði.
Við höfum sýnt hvað býr í þessari þjóð þegar náttúruhamfarir dynja á samfélagi okkar. Við stöndum andspænis félagslegum og efnahagslegum hamförum þegar kemur að hópi sem hefur það allra verst á íslenskum vinnumarkaði.
Hvenær ef ekki nú ættum við að stíga sameiginlega fram og tryggja að enginn verði skilinn eftir?
Höfundur er formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu og 1. varaformaður BSRB.