Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

12. febrúar 2024

Velferðarkerfi á brauðfótum – staða einhleypra foreldra

Í rannsókn Vörðu um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs kom fram að um þriðjungur einhleypra foreldra hafði ekki efni á sumarnámskeiðum eða sumarbúðum fyrir börnin sín. Ljósmynd/Hari

Fjórðungur einhleypra foreldra á vinnumarkaði og tæplega helmingur einhleypra foreldra á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk ekki greitt kostnað vegna félagslífs barna sinna til dæmis að fara í afmæli, í bíó eða aðra afþreyingu með vinum. [...] Niðurstöður rannsókna Vörðu hafa ítrekað sýnt að þau velferðar- og stuðningskerfi sem ætlað er að gera fólki kleift að sjá fyrir sér og börnum sínum óháð hjúskaparstöðu hafa brugðist. Sá hópur sem ber þyngstu byrðarnar af því eru börn einhleypra foreldra.

Eftir Kristínu Hebu Gísladóttur

Undanfarin ár hefur Varða – Rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins kannað lífskjör og lífskilyrði launafólks og fólks á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk. Niðurstöðurnar sýna ítrekað sama mynstur þar sem staða einhleypra foreldra er verst.

Tæplega fjórðungur býr við fátækt
Í könnun Vörðu um stöðu launafólks sem birt var í maí 2023 kom í ljós eins og árin á undan að fjárhagsstaða einhleypra foreldra sem eru á vinnumarkaði var verst á öllum þeim fjölmörgu mælikvörðum sem stofnunin notar. Þannig áttu ríflega sex af hverjum tíu einhleypum foreldrum erfitt með að ná endum saman, tæplega sex af hverjum tíu gátu ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar, tæplega helmingur hefur ekki efni á árlegu fríi með fjölskyldu og tæplega fjórðungur býr við efnislegan eða verulegan efnislegan skort – sem er í raun hlutfall þeirra sem búa við fátækt.

Sú slæma fjárhagsstaða sem einhleypir foreldrar búa við öðrum fremur sést skýrt þegar litið er til þeirra sem hafa þurft að fá aðstoð frá ættingjum eða vinum í formi matar- eða peningagjafa. Meira en fjórðungur einhleypra foreldra hefur þurft slíka aðstoð. Auk þess er hlutfall þeirra sem eru á vinnumarkaði og þurft hafa fjárhagsaðstoð frá félags- eða hjálparsamtökum (5%) og mataraðstoð (5%) hæst á meðal einhleypra foreldra.

Slæm fjárhagsstaða þessa hóps á vinnumarkaði stigmagnast þegar litið er til einhleypra foreldra á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk. Tæplega níu af hverjum tíu eiga erfitt með að ná endum saman og lítið lægra hlutfall gæti ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum.


Niðurstöður rannsókna Vörðu hafa ítrekað sýnt að þau velferðar- og stuðningskerfi sem ætlað er að gera fólki kleift að sjá fyrir sér og börnum sínum óháð hjúskaparstöðu hafa brugðist.

Velferðar- og stuðningskerfið hefur brugðist börnum
Niðurstöður rannsókna Vörðu hafa ítrekað sýnt að þau velferðar- og stuðningskerfi sem ætlað er að gera fólki kleift að sjá fyrir sér og börnum sínum óháð hjúskaparstöðu hafa brugðist. Sá hópur sem ber þyngstu byrðarnar af því eru börn einhleypra foreldra. Hærra hlutfall barna einhleypra foreldra býr ekki við sömu lífskjör og börn sambúðarfólks.

Fyrir það fyrsta hafa þau ekki tækifæri til að taka fullan þátt í skipulögðu skólastarfi. Það sést þegar litið er til þess að 12% einhleypra foreldra á vinnumarkaði og 32% einhleypra foreldra á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk, geta ekki greitt kostnað vegna viðburða í skóla, t.d. öskudags, sérstaks nestis eða skólaferðalags. Til viðbótar getur mun hærra hlutfall einhleypra foreldra ekki greitt kostnað vegna skipulagðra tómstunda sem ítrekað er lögð áhersla á að hafi mikið forvarnargildi fyrir börn. Auk þess getur fjórðungur einhleypra foreldra á vinnumarkaði og tæplega helmingur einhleypra foreldra á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk ekki greitt kostnað vegna félagslífs barna sinna til dæmis að fara í afmæli, í bíó eða aðra afþreyingu með vinum. Í rannsókn Vörðu um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs kom fram að um þriðjungur einhleypra foreldra hafði ekki efni á sumarnámskeiðum eða sumarbúðum fyrir börnin sín.

Andleg líðan einhleypra foreldra mikið áhyggjuefni
Slæm andleg líðan og slæm fjárhagsstaða eru systur og það sést ítrekað í rannsóknum Vörðu. Andleg heilsa þeirra hópa sem standa verr fjárhagslega er ávallt verri þrátt fyrir að ekki sé hægt að fullyrða um orsakasamhengið.

Í könnunum Vörðu sést bersýnilega að hæst er hlutfall einhleypra foreldra sem býr við slæma andlega heilsu. Það á við um helming einhleypra foreldra á vinnumarkaði og átta af hverjum tíu einhleypum foreldrum sem eru á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk. Auk þess sýndi könnun Vörðu meðal foreldra barna á aldrinum 12 mánaða til 12 ára að hærra hlutfalli einhleypra foreldra gekk illa að samræma fjölskyldulíf og atvinnu og bregðast við frí- og starfsdögum í skólastarfi barna sinna. Til viðbótar var um fimmtungur einhleypra foreldra með veikt félagslegt bakland og um þriðjungur hafði ekki kost á að fá barnapössun.

Þau viðamiklu gögn sem Varða hefur safnað undanfarin ár segja öll sömu sögu. Fjárhagsstaða einhleypra foreldra sem eru á vinnumarkaði er mun verri en annarra hópa og þegar staða þeirra sem eru á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk er greind sést að sú slæma staða stigmagnast í þeirra hópi og er óboðleg.

Til að bæta lífskjör barna í íslensku samfélagi þarf að styrkja stöðu einhleypra foreldra enda verða lífskjör barna og aðstæður aldrei slitin frá stöðu foreldranna.


Höfundur er framkvæmdastýra Vörðu – Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins.

Þær tölur sem fram koma í greininni eru úr eftirfarandi rannsóknum Vörðu: Kristín Heba Gísladóttir og Maya Staub. (2023). Staða fatlaðs fólks á Íslandi: Niðurstöður spurningakönnunar meðal fólks með örorkumat, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk. Varða. Sjá hér.

Kristín Heba Gísladóttir, Maya Staub og Kolbeinn Hólmar Stefánsson. (2023). Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs: Niðurstöður spurningakönnunar meðal foreldra barna á aldrinum 12 mánaða til 12 ára. Varða. Sjá hér.

Maya Staub og Kristín Heba Gísladóttir. (2023). Staða launafólks á Íslandi: Niðurstöður spurningakönnunar meðal félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB. Varða. Sjá hér.