13. febrúar 2024
Grípa þarf til árangursríkra aðgerða í að endurheimta sterk millifærslukerfi
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis.
Formaður Sameykis, Þórarinn Eyfjörð, skrifar í grein í Tímarit Sameykis um kröfugerðir vegna kjarasamningsviðræðna sem nú fara í hönd. Kjarasamningsgerð félagsins byggir á greiningarfundum í Trúnaðarmannaráði Sameykis.
Á greiningarfundi Trúnaðarmannaráðs þann 11. desember síðastliðinn þegar um 200 trúnaðarmenn unnu að megináherslum og kröfum í komandi kjarasamningum voru lögð fram áhersluatriði sem voru fjölbreytt og snertu alla kjarasamninga sem Sameyki gerir.
Þórarinn segir að ef breið samstaða skapist á vinnumarkaðnum um sameiginlegar kröfur þá opnist möguleiki fyrir langtímasamninga. Og til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að í samningum séu haldgóð forsenduákvæði (rauð strik) á tilgreindum tímasetningum.
Þá segir hann að fjölmarg brenni á félagsfólki í Sameyki og reyndar hjá launþegahreyfingunni allri og bendir í því sambandi á efnahagsþróun síðustu ára, stýrivaxtahækkanir, verðbólgu, hækkun húsnæðiskostnaðar ásamt fleiru.
„Þessi þróun hefur komið hart niður á launþegum og stórlega dregið úr kaupmætti ráðstöfunartekna. Ein helsta krafan er því að auka kaupmátt og verja hann frá því sem nú er. Einnig verður að grípa til árangursríkra aðgerða í að endurheimta sterk millifærslukerfi, endurmeta virði kvennastarfa, og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla,“ segir Þórarinn Eyfjörð.
Hægt er að lesa grein Þórarins hér.
Hægt er að lesa nýjasta tölublaðið hér.