13. febrúar 2024
Kröfugerðir vegna komandi kjarasamninga
Félagsfólk í Sameyki. Ljósmynd/BIG
Fjölmargir þættir brenna á okkar félagsfólki um þessar mundir. Hvað varðar sameiginlega þætti hjá launþegahreyfingunni allri þá má nefna efnahagsþróun síðustu ára, stýrivaxtahækkanir, verðbólgu, hækkun húsnæðiskostnaðar ásamt fleiru. Þessi þróun hefur komið hart niður á launþegum og stórlega dregið úr kaupmætti ráðstöfunartekna.
Eftir Þórarin Eyfjörð
Samninganefndir Sameykis hafa núna verið í markvissri undirbúningsvinnu hver á sínu samningssviði. Sú vinna hófst með greiningarfundi Trúnaðarmannaráðs þann 11. desember síðastliðinn þegar um 200 trúnaðarmenn unnu að megináherslum og kröfum í komandi kjarasamningum.
Áhersluatriðin voru fjölbreytt og snertu alla kjarasamninga sem Sameyki gerir, en þeir eru 17 talsins. Samninganefndir félagsins hittust síðan á námskeiði og vinnufundi þann 15. janúar síðastliðinn, þar sem nefndirnar einbeittu sér að því að fullgera kröfugerðirnar.
Kröfur nefndanna eru tilbúnar fyrir fyrstu samningana sem losna í janúar og febrúar og nú er verið að vinna að lokaútfærslu kröfugerða fyrir samningana sem losna í lok mars. Fyrstu samningarnir eru við Isavia, Orkuveituna, Fríhöfnina, RARIK og RÚV og síðan eru samningarnir við Reykjavíkurborg, ríki og aðra aðila sem starfa að almannaþjónustunni lausir þann 31. mars næstkomandi.
Hugmynd um þjóðarsátt verður til
Fyrir síðustu áramót komu fram mjög ákveðnar og jákvæðar fréttir af viðræðum milli hluta verkalýðsfélaganna innan ASÍ og Samtaka atvinnulífsins. Þær fréttir snerust að mestu leyti um að unnið væri að því að koma saman samningum sem byggðu á hógværum launahækkunum, endurreisn bótakerfa og lækkun verðbólgu og vaxta. Rætt var um þjóðarsátt þar sem allir aðilar á markaði myndu leggja sitt af mörkum – allt góðar áherslur og nauðsynlegar. Um miðjan janúar slitnaði síðan upp úr þessu samtali, að sögn vegna þess að SA hugnaðist ekki að gera krónutöluhækkanir að forgangsatriði í samningunum.
Samningaviðræður er að sönnu aldrei fullreyndar og ekki er að vita hvort aðilar á almennum markaði nái saman á ný um einhvers konar tillögu eða hugmynd sem kemur þeim um borð í sama bát á ný. Eins og staðan er nú þá hefur þó enn ekki verið hægt að draga upp skýra mynd af því hvernig málin þróast á næstunni. Það sem við þó vitum er að félög innan ASÍ hafa verið að ræða sérmál sín sérstaklega við SA, þó að þau séu hluti af samflotinu og að þau félög innan ASÍ, sem ekki eru í umræddu samfloti, hafa vísað samningaviðræðum til sáttasemjara. Einnig vitum við að félög innan BSRB sem semja við SA hafa þegar hafið samtal við samtökin. Segja má að það sé alls konar í gangi á vinnumarkaðnum núna og óvissa allnokkur, en ef breið samstaða myndast á vinnumarkaði um sameiginlegar kröfur og trúverðuga aðkomu launagreiðenda, þá opnast að líkindum möguleiki til að ræða kjarasamninga til lengri tíma. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að í samningum séu haldgóð forsenduákvæði (rauð strik) á tilgreindum tímasetningum. Ef ekki næst breið samstaða aðila þá gerir Sameyki ráð fyrir að skammtímasamningar verði raunin.
Félagsfólk í Sameyki leggur línurnar
Sameyki gerir 17 fullvaxna kjarasamninga og á bak við hvern samning stendur sérstök samninganefnd. Samningar við flest opinberu hlutafélögin, sem eiga vel að merkja aðild að Samtökum atvinnulífsins, gilda til 31. janúar á þessu ári. Þar undir eru Orkuveitan, Fríhöfnin og RARIK og samningur RÚV er laus í lok febrúar. Það er síðan ekki fyrr en 31. mars nk. sem aðrir samningar félagsins renna út, en á þeim tímapunkti eru samningar lausir við Reykjavíkurborg, ríkið, Klettabæ, Ás styrktarfélag, Vinakot, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, Samband íslenskra sveitarfélaga, Strætó bs., Félagsbústaði, Faxaflóahafnir og aðra launagreiðendur sem starfa í almannaþjónustu.
Á trúnaðarmannaráðsfundi þann 11. desember síðastliðinn fór fram sameiginleg vinna trúnaðarmanna þvert á launagreiðendur og var megininntak þeirrar vinnu að greina áhersluatriði til að taka upp í komandi kröfugerðum. Á þeim fundi komu fram fjölmörg atriði og áhersluþættir sem verið er að vinna með í kröfugerðum. Á sameiginlegum fræðslu- og starfsdegi allra samninganefnda innan félagsins, sem haldinn var þann 15. janúar síðastliðinn, unnu samninganefndirnar að frekari útfærslu hver í sinni kröfugerð og að síðustu eiga nefndirnar eftir að koma saman hver og ein og ganga frá lokaskjölum áður en eiginlegar viðræður hefjast.
Mál sem hvíla þungt á fólki
Fjölmargir þættir brenna á okkar félagsfólki um þessar mundir. Hvað varðar sameiginlega þætti hjá launþegahreyfingunni allri þá má nefna efnahagsþróun síðustu ára, stýrivaxtahækkanir, verðbólgu, hækkun húsnæðiskostnaðar ásamt fleiru. Þessi þróun hefur komið hart niður á launþegum og stórlega dregið úr kaupmætti ráðstöfunartekna. Ein helsta krafan er því að auka kaupmátt og verja hann frá því sem nú er. Einnig verður að grípa til árangursríkra aðgerða í að endurheimta sterk millifærslukerfi, endurmeta virði kvennastarfa, og brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, svo eitthvað sé nefnt. Örugg og fyrirsjáanleg framfærsla fjölskyldunnar er þannig samfélagslegt forgangsverkefni – nauðsynlegt er að tekin verði afgerandi skref í þá átt að tryggja launafólki fjárhagslegt skjól og að reistir verði efnahagslegir varnargarðar sem tryggja að almenningur geti lifað án ótta um verri fjárhagslega afkomu.
Af einstökum kröfum á hendur launagreiðendum er fjölmargt sem fram kemur í kröfugerðunum. Má þar nefna afgerandi breytingar á betri vinnutíma í vaktavinnu og lagfæringar á fyrirkomulagi innan dagvinnunnar, marktæk og stór skref hvað varðar samkomulag um jöfnun launa á milli markaða, lagfæringar á yfirvinnutaxta, aukinn rétt vegna veikinda nákominna og veikindarétt vegna barna að 18 ára aldri, rétt til endurkomu í starf að loknum veikindum, fyrirkomulag persónuuppbóta, breytingar og þróun á stofnanasamningum og starfsmatskerfum, innleiðingu launaskriðstryggingar, rétt vegna mæðraskoðunar og tæknifrjóvgunar, bættan rétt vegna líkams- og munatjóna, og svo mætti lengi telja.
Ljóst er að samninganefndir félagsins vilja ræða fjölmargt við sína launagreiðendur.
Höfundur er formaður Sameykis og 1. varaformaður BSRB.