15. febrúar 2024
Málþing um mannauðsmál og Stofnun ársins haldið í dag
Sirrý Arnardóttir stjórnendaþjálfari og fjölmiðlakona setti málþingið Velsæld á vinnustað í dag. Ljósmynd/BIG
Sameyki heldur málþing í dag kl. 14:00 á Hilton Nordica Reykjavík um mannauðsmál sem ber yfirskriftina Velsæld á vinnustað. Þar verður fjallað um helstu úrlausnarefni sem stjórnendur vinnustaða og stofnana standa frammi fyrir þegar kemur að geðheilbrigði starfsfólks. Rætt verður um áhrif stjórnunar og vinnufyrirkomulags á geðheilsu starfsfólks, um skyldur og ábyrgð stjórnenda og þá þætti sem líklegir eru til að draga úr geðheilsu á vinnustað en líka þá þætti sem efla geðheilsu á vinnustað.
Fyrirlesarar á málþinginu eru: Helena Jónsdóttir, klínískur sálfræðingur, Sóley Kristjánsdóttir, stjórnenda- og vinnustaðaráðgjafi hjá Gallup, Ragnhildur Vigfúsdóttir, mark- og teymisþjálfi og Tómas Bjarnason, sviðsstjóri stjórnendaráðgjafar Gallup.
Að loknu málþinginu verður hátíðin Stofnun ársins sett þar sem veittar verðar viðurkenningar þeim stofnunun og vinnustöðum í opinberri þjónustu sem skarað hafa framúr á sviði mannauðsmála.
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu vill með málþinginu vekja athygli á hve mikilvægt er að stjórnendur stofnana ríkis og sveitarfélaga hugi að mannauðsmálum og velsæld á vinnustöðum til að stuðla að betri vinnustað, ánægðari starfsfólki og betri þjónustu við almenning.
Stofnun ársins er nú stærri en nokkru sinni fyrr þar sem 17 þúsund manns tóku þátt í könnuninni sem framkvæmd var á haustmánuðum 2023.
Málþingsstjóri er Sirrý Arnardóttir stjórnendaþjálfari og fjölmiðlakona.
Hægt er að fylgjast með málþinginu í gegnum streymi hér.