Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

16. febrúar 2024

Vandamál sem stafa af tengslaleysi hjá stjórnendum erfiðari viðfangs en lausnin

Tómas Bjarnason, sviðsstjóri stjórnendaráðgjöf Gallup

Tómas Bjarnason, sviðsstjóri stjórnendaráðgjöf Gallup, flutti erindi á málþingi Sameykis í gær Velsæld á vinnustað sem fjallaði um stjórnendahlutverk á vinnustöðum og svaraði því í erindi sínu hvort það væri tengslamyndandi hlutverk.

Hann sagði að hlutverk fólks á vinnustöðum sem stjórnendur fælist einfaldlega í því að eiga góð, opin og heiðarleg samskipti við fólk.

„Samskipti eru oftast sá þáttur sem er mest krefjandi en um leið mest gefandi, en einnig um leið eru þau eina leiðin sem þú hefur til að hafa áhrif á fólk. Og hlutverk þeirra er að skapa aðstæður þar sem starfsfólki gengur vel og getur náð árangri í sínum störfum, því fólk vill ná árangri og það vill komast nær markmiðunum í sínum störfum. Þess vegna skiptir máli að hrósa fólki, hvetja það áfram og segja eins og er, að það sé mikilvægt á vinnustaðnum. Okkur þykir auðvitað gott að fá að vita að við skiptum máli,“ sagði Tómas.

Þá sagði hann að gæði samskipta á vinnustað væri lykilþáttur í því að skapa starfsfólki umhverfi þar sem því gengur vel og getur náð árangri. Tómas skýrði frá því að í könnunum Gallup kemur fram að starfsánægja skýrir 25 prósent af lífsánægju, samskipti og tengsl skýra 39 prósent af starfsánægju en samskipti og tengsl við stjórnendur skýra 86 prósent af samskiptum almennt hvað varðar lífsánægju og ánægju í starfi. Aðeins 14 prósent skýrist af samskiptum við vinnufélaga.

„Aðrir lykilþættir samkvæmt helgunarmódeli Gallup fyrir stjórnendur eru eftirfarandi sex atriði; að nýta styrkleika fólks, að veita góðri frammistöðu eftirtekt og viðurkenningu, að bera raunverulega umhyggju fyrir fólki, að hvetja til þróunar, að gefa fólki rödd og áhrif og að skapa tilgang með vinnunni. Þá er mikilvægt að finna út hvernig verkefnum starfsfólk þrífst best í, hvað starfsfólk brennur fyrir í sínum störfum og gengur vel í, en einnig í hvaða verkefnum starfsfólk strögglar. Lykilinn eru samskipti.“

Tómas sagði það vera nauðsynlegt í samskiptum á vinnustað m.a. að biðja aðra um álit og hlusta, ekki bara kinka kolli og vera í tölvunni og í símanum. Það væri ekki virk hlustun á fundum. En einnig að veita starfsfólki umboð, treysta því til starfanna. Þá sagði hann að stjórnendur á vinnustöðum ættu að leggja sig fram í að bera umhyggju fyrir fólki, þekkja fólk og aðstæður þess og viðukenna framlag þeirra. Áriðandi væri líka að stjórnendur deildu upplýsingum því opin samskipti skapa traust. Viðurkenna eigin takmarkanir og mistök og að biðja samstarfsfólk um endurgjöf.

Í könnun Gallup fyrir Stofnun ársins 2021 vakti Tómas athygli á einni spurningu sem hljómaði svo: Ég fæ stuðning og hvatningu frá næsta yfirmanni mínum? Í úrvinnslu Gallup og greiningu á spurningunni kemur fram að þau sem fá ekki stuðning eru 13 sinnum líklegri til að upplifa að það sé „erfitt“ að koma með tillögur að umbótum en þau sem fá stuðning. 5 prósent á móti 68 prósent.

Samkvæmt þessu ættu stjórnendur á vinnustöðum að vilja, og sækjast eftir því, að bæta starfsánægju og velsæld á sínum vinnustað. Þeim ætti að vera ljóst að góð samskipti skipta mestu máli í að ná góðum árangri í að rækta tengsl og velsæld á vinnustaðnum. Einnig að vinna að því að gera starfsfólki létt að koma fram með tillögur að umbótum eða breytingum.

„Þetta er spurning um um hvar þið viljið vera sem stjórnendur á ykkar vinnustað. Vandamálin sem stafa af tengslaleysi geta verið miklu erfiðari viðfangs en lausnin, sem er einfaldlega góð samskipti. Vandamálin eru þekkt, skortur á helgun, óánægja, mikil starfsmannavelta, tíðar fjarvistir, reiði og biturð og ágreiningur. Hvar viljið þið vera?“ sagði Tómas að lokum.

Hægt ert að horfa á alla fyrirlestra málþingsins hér.