5. mars 2024
Rúm 60 prósent einhleypra mæðra á vinnumarkaði eiga erfitt að ná endum saman
Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastýra Vörðu - rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins.
Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastýra Vörðu – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, kynnti skýrslu stofnunarinnar á stöðu launafólks á Íslandi í Þjóðmenningarhúsinu í hádeginu í dag. Könnunin byggir á svörum 21 þúsund starfandi á vinnumarkaðnum. Kristín Heba sagði að markmið Vörðu væri að bera kennsl á mismunandi hópa og stöðu þeirra á vinnumarkaðnum en um leið væri gríðarlega mikill breytileiki hjá félagsfólki innan bandalaganna ASÍ og BSRB.
Kristín Heba sagði að almennt hefði launafólk það nokkuð gott samkvæmt könnuninni þegar spurt var hvort það ætti auðvelt eða erfitt með að ná endum saman á árunum 2022, 2023 og 2024. Um 60 prósent launafólks á mjög auðvelt, auðvelt eða nokkuð auðvelt með að ná endum saman sem hún sagði hljóta að vera gleðiefni. Hún sagði að það væri ennþá gleðilegra að það væri aðeins lægra hlutfall launafólks sem erfitt með að ná endum saman sambanborið í fyrra.
Hún sagði að það verði að líta til hlutskiptis einhleypra mæðra og feðra sem hafa það verst á vinnumarkaðnum samkvæmt skýslu Vörðu. 63 prósent einhleypra mæðra eiga mjög erfitt eða erfitt með að ná endum saman. Þá er staða innflytjenda einnig óviðunandi á vinnumarkaðnum. Fólk með erlendan bakgrunn er fólk sem er fætt á Íslandi sagði Kristín Heba og benti einnig á að staða fólks með erlendan bakgrunn er betri heldur en innflytjenda, en verri en fólk með íslenskan bakgrunn. Hún sagði að könnunin sýndi eins og svo oft áður að konur eiga erfiðara með að ná endum saman heldur en karlar.
„Þetta er þekkt mynstur. Staða kvenna á öllum mælikvörðum er verri en karla. Og við sjáum líka í þessari fyrirlögn að konur búa við minna fjárhaglegt sjálfstæði en karlar,“ sagði Kristín Heba.
Þá sagði hún að samtals 12,7 prósent launafólks búi við verulegan efnislegan skort og 17,7 prósent búi við efnislegan skort.
Hægt er að skoða skýrslu Vörðu hér.
Hægt er að horfa á kynninguna í spilaranum hér að neðan.