Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

8. mars 2024

Formaður BSRB segir að horft verði til samninga á almenna markaðinum

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB sagði í fréttum RÚV vera ánægð fyrir hönd þeirra stéttarfélaga sem skrifuðu undir kjarasamninga í gær og tekur undir þau markmið sem þar voru lögð til grundvallar. Þá sagði hún að horft verði til samninga á almenna markaðinum í kjarasamningaviðræðum á opinberum vinnumarkaði.

Skrifað var undir kjarasamninga á almenna markaðinum í gær. Þeir eru til fjögurra ára. Í tilkynningu stjórnarráðsins segir að ríkið leggi fram allt að 80 milljarð króna inn í tilfærslukerfin á samningstímabilinu. Í þeim er lögð sérstök áhersla á að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og fjölskylduvænna samfélagi samhliða því að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Aðgerðirnar munu auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna verulega á samningstímanum, eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Sonja Ýr sagði að meginverkefnið sé að stemma stigu við vöxtum og verðbólgu með kjarasamningunum. „Eins og staðan er núna þá bara tökum við undir þessi meginmarkmið með kjarasamningunum um að meginverkefnið sé að stemma stigu við vöxtum og verðbólgu. Þannig að það hefur ekki verið umræða um það sérstaklega að aðildarfélög BSRB ætli sér að sækja meira.“