Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

20. mars 2024

Virðismat starfa í þágu launajafnréttis

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, skrifstofurstjóri á fundinum í morgun.

Í morgun stóð Forsætisráðuneytið fyrir fundi um virðismat starfa í þágu launajafnréttis á vinnumarkaði. Katrín Jakobsdóttir flutti ávarp og sagði að í tengslum við gerð kjarasamninga aðildarfélaga BSRB við ríki og sveitarfélög vorið 2020 var því lýst yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar að sett yrði af stað vinna til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði með því að leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar segir að farið verði í aðgerðir til að draga úr kynbundnum launamun hjá hinu opinbera.

Í því skyni skipaði forsætisráðherra aðgerðahóp sem á að vinna að aðgerðum til að útrýma launamun kynjanna sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum.

„Þetta hefur tekið 60 ár og við verðum að vinna að því að eyða kynbundnum launamun á vinnumarkaði. Nú horfir til betri tíðar því að mín ríkisstjórn hefur nú hafið það verkefni að útrýma kynbundnum launamun á vinnumarkaði.“

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, skrifstofustjóri í Forsætisráðuneytinu, kynnti niðurstöður skýrslunnar um launamun kynjanna á vinnumarkaði sem ráðuneytið lét vinna í samstarfi við Hagstofu Íslands. Hún sagði að kynbundin skipting í störfum skýrir að miklu leyti þann launamun sem er til staðar í landinu, en áhrif menntunarstigs og lýðfræðilegra þátta á launamun hafa þó minnkað, einkum seinni árin. Steinunn Valdís sagði að 35 ríkisstofnanir voru kannaðar þar sem rannsakað var launamunur kynjanna. Vinnustaðirnir voru allir mældir út frá jafnlaunavottun – væru tilbúnir í samstarfið með opnum huga. Niðurstaðan varð sú að fjórar stofnanir voru valdar til að taka þátt í samstarfsverkefninu; að kanna launamun kynjanna. Stofnanirnar voru Hafrannsónarstofnun, Tryggingastofnun, Heilbriðigðistofnun Vestfjarða og Embætti Ríkislögreglustjóra. Niðurstöðurnar voru að kynbundinn launamunur er til staðar og tillögur aðgerðahóps til úrlausnar eru í tveimur liðum:

1. Unnið verði áfram með þátttökustofnunum fjórum í áframhaldandi mati allra starfa og farið í launagreiningu. Markmið verði m.a. að meta kostnað við leiðréttingu hópa ef til þess kemur.

2. Stofnað verði til samstarfsverkefnis um heildstætt virðismatskerfi sem taki til ríkisstofnana til að byrja með. Verkefnið er mikilvægt langtímaverkefni þar sem kalla þarf að borðinu þá aðila sem best þekkja til og byggja á reynslu af slíkum kerfum hér á landi og erlendis.

„Við stöndum frammi fyrir þessari staðreynd, að kynbundinn launamunur er til staðar og hann er forsenda þessarar vinnu. Við verðum að fara í að innleiða virðismatskerfi,“ sagði Steinunn Valdís.

Virðismat starfa. Skýrsla aðgerðahóps um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði, sjá skýrsluna hér.
Virðismatskerfi í þágu launajafnréttis frá Jafnlaunastofu, sjá skýrsluna hér.