29. apríl 2024
Hvers virði er að líða vel í vinnunni?
Minni hamingja dregur úr velferð einstaklings og kallast velferðartap.
Sá einstaki þáttur sem sýnir sterkasta sambandið við hamingju er að yfirmaður meti að verðleikum þegar starfsfólk nær árangri í starfi. Næst á eftir koma streituvaldandi samskipti við yfirmann og þriðja er stuðningur frá samstarfsfólki við verkefni þegar á þarf að halda.
Eftir Ásthildi Margréti Jóhannsdóttur
Með hraðri tækniþróun er vinnustaðaumhverfi stöðugt að breytast og þróast og því fylgja bæði góð og slæm áhrif á starfsfólk. Skilin á milli vinnu og einkalífs eru víða orðin óskýr og vinnan fylgir fólki oft heim í lok dags. Andleg heilsa í vinnu er mikil áskorun á vinnumarkaði og eru sálfélagslegar aðstæður stór áhrifaþáttur í líðan starfsfólks. Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl slæmra sálfélagslegra aðstæðna í vinnu við bæði líkamlega og andlega kvilla, svo sem þunglyndi, hjartasjúkdóma og króníska verki (Bonde, 2008; Schütte o.fl., 2014).
Skaðlegar sálfélagslegar aðstæður geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, svo sem vinnustreitu sem síðar getur jafnvel leitt til kulnunar. Góðu fréttirnar eru þær að rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að fjárfesting í betri líðan og vinnuaðstæðum getur skilað sér tvö- til þrefalt til baka, þ.e. hver króna sem fjárfest er í bættri heilsu og líðan starfsmanna skilar sér í tveimur til þremur krónum til baka í bókhald fyrirtækja í formi minni fjarveru og aukinna afkasta (Baicker o.fl., 2010).
Vanlíðan starfsfólks er kostnaðarsöm
Vanlíðan í starfi fylgir margvíslegur kostnaður fyrir vinnuveitendur, s.s. í formi veikinda og minni framleiðni, þar sem afköst minnka þegar vanlíðan er mikil. Auk þessa fylgir kostnaður fyrir samfélagið í formi lægri skatttekna og hærri bótagreiðslna við að missa fólk út af vinnumarkaði til skemmri tíma eða lengri. Síðast en ekki síst er það kostnaður einstaklingsins sem felst annars vegar í beinum útgjöldum, s.s. tekjutapi, útgjöldum vegna læknis- og sálfræðiþjónustu og sjúkraþjálfunar og hins vegar í óáþreifanlegum kostnaði. Óáþreifanlegi kostnaðurinn er meðal annars sú hamingjulækkun sem á sér stað hjá einstaklingi sem býr við slæmar aðstæður í vinnu. Minni hamingja dregur úr velferð einstaklings og kallast velferðartap.
Mikilvægt er að vita hvert velferðartap fólks er við mismunandi aðstæður svo hægt sé að meta heildarkostnaðinn af slæmum aðstæðum í vinnu. Sé velferðartap einstaklinga undanskilið í heildarkostnaði er matið verulega bjagað. Það er ekki hlaupið að því að reikna þennan kostnað en þó ekki ómögulegt og það var gert í nýlegri íslenskri rannsókn um líðan á vinnustöðum (Tinna Laufey Ásgeirsdóttir o.fl., 2023). Rannsóknin var unnin upp úr íslenskum gögnum frá Embætti landlæknis um heilsu og líðan á Íslandi. Gögnin ná til tæplega 9.000 Íslendinga og spanna fjögur ár á tímabilinu 2007 til 2017.
Hvaða þættir vinnuumhverfisins voru rannsakaðir?
Í gögnunum eru ítarlegar upplýsingar um sálrænar og félagslegar aðstæður í vinnu, hamingju hvers einstaklings, tekjur og bakgrunnsbreytur sem hafa áhrif á hamingjuna. Í rannsókninni var notuð svokölluð tekjuuppbótaraðferð til þess að mæla velferðartap við mismunandi aðstæður í vinnu. Aðferðin reiknar hve mikla tekjuhækkun einstaklingur þyrfti að fá til þess að vera jafn hamingjusamur með slæmar vinnuaðstæður og án þeirra fyrir tekjuhækkun. Þessi tekjuhækkun er oft kölluð tekjuuppbót og er álitin virði þess að vinna ekki við þessar tilteknu slæmu aðstæður. Með því að reikna velferðartap í þessu samhengi er hægt að svara spurningunni um hvers virði líðan í vinnu er að meðaltali fyrir starfsfólk.
Sá einstaki þáttur sem sýnir sterkasta sambandið við hamingju er að yfirmaður meti að verðleikum þegar starfsfólk nær árangri í starfi.
Í rannsókninni var stuðst við fimmtán spurningar um sálfélagslega þætti í vinnu. Spurningarnar ná yfir mismunandi aðstæður í vinnu og skiptast niður á fimm flokka: Kröfur um afköst (t.d. hvort vinna þurfi hratt eða mikla yfirvinnu), hlutverkarugling (t.d. hvort nægileg bjargráð séu til staðar til að sinna starfinu og kröfur séu skýrar), stuðning samstarfsfélaga, stuðning yfirmanns og réttláta stjórnun. Hver flokkur inniheldur tvær til fjórar spurningar. Spurningarnar fimmtán mynda kvarða sem gefur mynd af heildaraðstæðum í vinnu. Skori fólk hátt á þessum kvarða gefur það merki um að sálfélagslegar aðstæður á vinnustaðnum séu skaðlegar.
Hvaða sálfélagslegu aðstæður hafa áhrif á líðan starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði?
Niðurstöðurnar sýndu að virði þess að bæta almennar sálfélagslegar aðstæður í vinnu er um þrjár milljónir króna að meðaltali á hvern starfsmann, reiknað í heimilistekjum á ári. Þetta má túlka þannig að starfsmaður er að meðaltali jafn hamingjusamur í vinnu við slæmar aðstæður ef hann fær þriggja milljóna króna árlega launahækkun, og ef aðstæður væru bættar og hann fengi ekki þessa launahækkun. Milljónirnar þrjár má svo margfalda með fjölda starfsfólks sem upplifir slæmar aðstæður á tilteknum vinnustað til þess að fá heildarvirði þess að bæta sálfélagslegar aðstæður hjá því fyrirtæki. Þannig eru bættar vinnuaðstæður fyrir starfsmanninn þriggja milljóna króna virði, að meðaltali. Einn af kostunum við rannsóknina var að niðurstöðurnar mátti sundurliða eftir bæði flokkunum fimm sem og einstökum spurningum.
Niðurstöðurnar sýndu skýrt að mestu áhrifin á líðan starfsfólks á Íslandi höfðu þeir þættir sem snúa að samskiptum. Töluvert minni áhrif hafði hlutverkaruglingur (rúmlega tvær milljónir króna á mann) en hlutverkaruglingur nær til þátta eins og að hafa ekki stjórn á eigin verkefnum og ekki nægileg bjargráð til að sinna sínu starfi. Kröfur um afköst höfðu langminnstu áhrifin á hamingju fólks (um 800 þúsund krónur á mann). Þetta geta verið kröfur um að vinna mikla yfirvinnu og að vinna þurfi hratt. Þetta er athyglisvert út frá því að þó þessir tveir þættir hafi minnst áhrif eru þetta flokkar sem snúa að sjálfu starfinu.
Af þessu má ráða að áhrif þess að vera með miklar kröfur og pressu á starfinu sjálfu eru ekki jafnslæm á líðan fólks og áhrifin af að skorta stuðning samstarfsfélaga, yfirmanna og vinna undir óréttlátri stjórnun. Sá einstaki þáttur sem sýnir sterkasta sambandið við hamingju er að yfirmaður meti að verðleikum þegar starfsfólk nær árangri í starfi. Næst á eftir koma streituvaldandi samskipti við yfirmann og þriðja er stuðningur frá samstarfsfólki við verkefni þegar á þarf að halda.
Hvað er til ráða?
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa dýrmæta innsýn í líðan á íslenskum vinnumarkaði. Með því að sjá áhrif mismunandi þátta á líðan einstaklinga má átta sig á hvar lykilinn að bættri líðan starfsfólks er að finna. Það gagnast vinnustöðum ekki síður en starfsfólki að vellíðan starfsfólks sé sett í forgang. Bætt líðan eykur afköst, heldur fólki lengur í vinnu og dregur úr fjarveru.
Niðurstöðurnar benda til þess að samskipti hafi langmest áhrif á líðan fólks, bæði samskipti við yfirmann en einnig stuðningur samstarfsfélaga. Yfirmenn bera að sjálfsögðu vissa ábyrgð á að bæta líðan á vinnustað, setja tóninn í góðum samskiptum og passa upp á góða framkomu sína og réttlæti í stjórnun. Hins vegar getur starfsfólk sjálft haft mikil áhrif á líðan vinnufélaga sinna með því að sýna stuðning og hlusta á vandamál er tengjast starfinu, því við getum öll gert eitthvað í átt að bættri líðan í vinnu.
Höfundur er doktorsnemi í hagfræði við Háskóla Íslands.
Heimildir:
Baicker, K., Cutler, D. og Song, Z. (2010). Workplace wellness programs can generate savings. Health Affairs, 29(2), 304–311.
Bonde, J. P. E. (2008). Psychosocial factors at work and risk of depression: A systematic review of the epidemiological evidence. Occupational and Environmental Medicine, 65(7), 438–445.
Schütte, S., Chastang, J. F., Malard, L., Parent-Thirion, A., Vermeylen, G. og Niedhammer, I. (2014). Psychosocial working conditions and psychological well-being among employees in 34 European countries. International Archives of Occupational and Environmental Health, 87(8), 897–907.
Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, Arnar Búason og Ásthildur Margrét Jóhannsdóttir. (2023). Valuing the wellbeing associated with psychosocial factors at work. Applied Research in Quality of Life, 18(4), 1737–1759.