29. apríl 2024
Réttindi sem félagsfólk í Sameyki ætti að hafa hugfast vegna veikinda
Ekki er æskilegt undir nokkrum kringumstæðum að félagsfólk segi upp starfi þegar veikindi koma upp.
Ekki er æskilegt undir nokkrum kringumstæðum að félagsfólk segi upp starfi þegar veikindi koma upp. Vakni sú hugmynd hvort sem er frá atvinnurekanda og eða félagsmanni skal hann hafa samband hið fyrsta við kjaradeild Sameykis. Með því gæti orðið skerðing á veikindarétti þar sem hann fellur niður við starfslok. Uppsögn starfsmanns getur aldrei skert veikindarétt hans, þ.e. ef uppsagnarfrestur er skemmri en veikindaréttur. Starfsmaður á rétt á launum í samræmi við áunninn veikindarétt, óháð uppsögninni. Byggir þetta á því grundvallarsjónarmiði að vinnuveitanda á ekki að vera mögulegt að skerða veikindaréttindi starfsmanna sinna með uppsögn úr starfi, nema að málefnalegar ástæður séu þar að baki sem ekki eiga rætur að rekja til veikinda starfsmanns.
Trúnaðarlæknir
Í kjarasamningsákvæðunum er ekki vikið að því með hvaða hætti trúnaðarlæknir skuli leggja mat á vinnufærni starfsmanns eða hver skuli vera undanfari útgáfu læknisvottorðs hans. Þannig er hvorki mælt fyrir um skyldu starfsmanns til að mæta til skoðunar eða viðtals hjá trúnaðarlækni né um heimild vinnuveitanda til að gefa starfsmanni slík fyrirmæli. Samkvæmt orðanna hljóðan leiðir það því ekki af skýringu ákvæðanna að yfirmaður geti skyldað starfsmann til að mæta hjá trúnaðarlækni. Því má ætla að ekki sé heimilt að skikka starfsmann til að mæta til trúnaðarlæknis og skal því starfsmaður árétta það að trúnaðarlæknir atvinnurekanda getur sett sig í samband við undirritaðan lækni í útgefnu vottorði og fengið álit þar á.
Læknisvottorð
Í kjarasamningum er fjallað um að ef óvinnufærni er meira en fimm vinnudagar samfleytt skuli starfsmaður alltaf skila læknisvottorði. Ef fjarvistir vegna veikinda eru langvarandi skal starfsmaður endurnýja læknisvottorð eftir því sem yfirmaður ákveður, en ekki sjaldnar en mánaðarlega. Hægt er að veita undanþágu frá þessu ef fyrirséð er að veikindin verði til langs tíma. Starfsmaður á rétt á að fá endurgreiddan kostnað vegna læknisvottorða og læknisheimsókna sem tengjast öflun vottorða, sem sannarlega er óskað eftir af yfirmanni.
Lausnarlaun
Hafi starfsmaður verið óvinnufær vegna veikinda eða slysa svo mánuðum skiptir á hverju ári um fimm ára tímabil eða í jafnlangan tíma, og ekki er skýlaust vottað að hann hafi fengið heilsubót sem ætla megi varanlega, má leysa hann frá störfum vegna heilsubrests. Einnig er heimilt að leysa starfsmann frá störfum sem hefur verið samfellt frá vinnu vegna veikinda eða slysa launalaust í jafnlangan tíma og þann tíma er hann átti rétt á að halda launum í fjarveru sinni. Starfsmaður getur að eigin frumkvæði, eftir að hafa verið samfellt frá vinnu vegna veikinda eða slysa launalaust í jafnlangan tíma og þann tíma er hann átti rétt á að halda launum í fjarveru sinni, óskað eftir að vera leystur frá störfum. Þegar starfsmaður er leystur frá störfum samkvæmt ofansögðu skal hann halda föstum launum í þrjá mánuði.