31. maí 2024
Aukin þjónusta við þolendur kynferðislegrar áreitni á vinnustað
Heildarsamtök launafólks og VIRK starfsendurhæfingarsjóður hafa tekið höndum saman að bjóða þolendum sem verða fyrir kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað betri þjónustu. Starfsfólk stéttarfélaganna hefur fengið aukna fræðslu og þjálfun í að veita þolendum faglegri og betri þjónustu. Samhliða hefur VIRK opnað þjónustu og má sjá á vef VIRK undir heitinu Vegvísissamtal, sjá hér.
Þolendum býðst nú aukin aðstoð og ráðgjöf hjá sínu stéttarfélagi um réttindi sín, úrræði og ábyrgð atvinnurekenda ef tilvik um áreitni og ofbeldi verða á vinnustað. Fulltrúi stéttafélags aðstoðað við að tilkynna atvik til stjórnenda, gert það fyrir hans hönd, setið fundi með þolanda og fylgt málinu eftir.
Þjónustan er þolendamiðuð þar sem þolandinn ræður för í einu og öllu og ekkert er gert nema með samþykki viðkomandi. Þá geta þolendur fengið sálrænan stuðning hjá VIRK í formi vegvísissamtals. Ráðgjafar VIRK eru sérhæfðir í að ræða við fólk í þessum aðstæðum. Fullur trúnaður ríkir í samtalinu og engar persónugreinanlegar upplýsingar eru skráðar.
Ekki er um hefðbundna starfsendurhæfingarþjónustu að ræða og því ekki gerð krafa um að fólk sé frá vinnumarkaði vegna veikinda eða slysa heldur er þjónustan opin öllum á vinnumarkaði sem hafa orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í vinnu.
Aðildarfélög BSRB bjóða alla þolendur velkomna, sama hvort málin eru gömul eða ný. Vel verður tekið á móti öllum.
Nánar um þjónustu VIRK má sjá hér.
Hvað er kynferðisleg áreitni?
Samkvæmt lögum er það upplifun þolanda sem stýrir því hvort um áreitni er að ræða. Áreitni og ofbeldi getur átt sér stað á vinnustað á vinnutíma, á skemmtunum og viðburðum tengdum vinnu eða utan vinnu og í gegnum samfélagsmiðla og aðra stafræna miðla. Birtingarmyndir áreitni til dæmis kynferðislegar athugasemdir,sendingar á samfélagsmiðlum eða í tölvupósti, snertingar og káf.
Afleiðingar áreitni og ofbeldi geta verið margvíslegar og alvarlegar. Fyrstu viðbrögð þolanda eru oft afneitun, skömm og sjálfsásökun. Ef þolanda tekst ekki að vinna úr áfallinu geta komið fram ýmsar líkamlegar og andlegar afleiðingar.
Hver verða fyrir kynferðislegri áreitni?
Um þriðjungur kvenna verður fyrir kynferðislegri áreitni á vinnuferlinum. Konur eru líklegastar til að verða fyrir kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi og hópar svo sem erlendar konur, konur með fötlun og hinsegin fólk er í meiri áhættu, þó fólk af öllum kynjum geti að sjálfsögðu orðið fyrir áreitni. Valdatengsl spila stórt hlutverk, og gerandinn er oftar en ekki með meiri völd á vinnustað en þolandi. Þar getur skipt máli aldursmunur, staða innan vinnustaðar og þjóðerni.
Skyldur atvinnurekanda
Atvinnurekanda er skylt að tryggja öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi. Hann skal bregðast fljótt við þegar tilkynning eða frásögn af áreitni eða ofbeldi berst eða þegar grunur um slíka háttsemi vaknar. Á vinnustöðum eiga að vera til staðar aðgengilegar viðbragðsáætlanir og verkferlar. Grípa skal til aðgerða tafarlaust til þess að tryggja öryggi þolanda. Skyldur atvinnurekanda eru ítarlega útlistaðar í reglugerð.