Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

19. júní 2024

Kvenréttindadagurinn er í dag

Kvenréttindadagurinn 19. júní er í dag. Hann er hátíðis- og baráttudagur kvenna á Íslandi og haldið hefur verið upp á hann frá því að konur fengu fullan kosningarétt til jafns á við karla.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir átti ríkan þátt í að koma á réttarbótum konum til handa á Íslandi og efla lýðræðissamfélagið í heild sinni. Hún barðist fyrir því að íslenskar konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn; kosningarétt, kjörgengi svo og embættisgengi og rétt til atvinnu með sömu skilyrðum og karlar. Fyrir hennar baráttu fengu giftar konur kosningarétt og kjörgengi 19. júní 1915 og öðluðust þar með sjálfstæði frá eiginmönnum sínum til pólitískrar þátttöku, en ekkjur og ógiftar konur höfðu þá haft kosningarétt í um aldarfjórðung.

Á Íslandi er enn kynbundinn launamunur á vinnumarkaði. Vegna baráttu kvenna eins og Bríetar hefur samfélagið mótast til meira jafnréttis, en áfram þarf að berjast gegn kynbundnu misrétti.

Jafn réttur og jöfn tækifæri kvenna og karla til launa og starfa eru grundvallarmannréttindi. Enn í dag er langt í land með að jafnrétti og jafnir möguleikar kynjanna verði að veruleika og ljóst er að ekki verður náð fullu jafnrétti á Íslandi fyrr en upprætt verður kynbundin launamunur á vinnumarkaði.