16. ágúst 2024
ICF flokkunarkerfi í starfsendurhæfingarferli VIRK
Jónína Waagfjörð, sviðsstjóri hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði. Ljósmynd/VIRK
Jónína Waagfjörð, sviðsstjóri hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði, segir í grein sem birtist upphaflega í ársriti VIRK 2024 og er nú aðgengileg á vef VIRK, að ICF flokkunarkerfið (International Classification of Functioning, Disability and Health) og hugmyndafræði þess hafi verið tekin upp hjá VIRK í matsferli starfsendurhæfingar.
Hún segir í greininni að ICF flokkunarkerfið byggi á líf-, sál- og félagslegri hugmyndafræði og hafi verið gefið út af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) árið 2011. Jónína segir að þegar kerfið er notað er horft á einstaklinginn út frá færni hans og þátttöku í samfélaginu en ekki einungis út frá þeim sjúkdómum og skerðingum/fötlun sem hann býr við. Markmið einstaklings í starfsendurhæfingu er að komast aftur út á vinnumarkaðinn eftir fjarveru vegna veikinda eða slysa.
„Sjúkdómsgreiningar skilgreina orsök vandans og geta gefið einhverja mynd af því hverjar raunhæfar horfur eru á árangri í starfsendurhæfingu. Í starfsendurhæfingu er hins vegar unnið með færniskerðingar einstaklingsins og þau áhrif sem þær geta haft á árangursríka þátttöku á vinnumarkaði.“
Þá segir Jónina að í vinnslu sé hjá VIRK úttekt á ýmsum þáttum ICF skráningar og skoðaðir eru möguleikar til að spá fyrir um lengd á þjónustu, endurkomu til vinnu og möguleika til að vera mælitæki á breytingum á heilsufari við lok starfsendurhæfingar.
„Upplýsingakerfi VIRK er í stöðugri þróun sem er mjög mikilvægt til að unnt sé að koma til móts við þarfir og áherslur einstaklinga í starfsendurhæfingu hjá VIRK hverju sinni. Það er einnig mikilvægt til að hægt sé að veita viðeigandi meðferðir í starfsendurhæfingu út frá þeim upplýsingum sem eru í upplýsingakerfi VIRK,“ segir Jónína í fróðlegri grein á vef VIRK.