10. september 2024
Fjörugur trúnaðarmannaráðsfundur
Fundur í trúnaðarmannaráði Sameykis var haldinn í dag. Fjallað var um þing BSRB sem haldið verður 2.-4. október nk., en Sameyki á 106 fulltrúa á þinginu, 62 konur og 44 karla. Yfirskrift þingsins er Afl í þágu almennings. Þá var á fundinum fjallað kjarasamninga, dómamál um ferðatíma, Stofnun ársins ofl.
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis.
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, ræddi um mótmælin á Austurvelli sem bandalög lauanfólks standa fyrir í dag kl. 16:00. Sagði hann að því tilefni að heimilin og almenningur í landinu gætu ekki tekið lengur á sig stjórnlausar hækkanir á neytendamarkaði né stigvaxandi hækkun húsnæðislána og hækkun á húsaleigu.
Þá sagði hann að inngilding á vinnumarkaði væri brýnt mál fyrir félagsfólk í Sameyki og mikilvægt væri að félagið væri vel meðvitað um þær öru breytingar sem eru á vinnumarkaðnum.
Staða Félagssjóðs og Orlofssjóðs
Gunnsteinn R. Ómarsson, skrifstofustjóri Sameykis, fór yfir sex mánaða uppgjör Félagssjóðs annars vegar og Orlofssjóðs Sameykis hins vegar. Hann sagði að félagafjöldi í Sameyki færi jafnt og þétt vaxandi sem væri jákvætt fyrir sjóðinn og að rekstur Félagssjóðs væri jákvæður.
Gunnsteinn R. Ómarsson, skrifstofustjóri Sameykis.
Varðandi Orlofssjóð hafi tekjur sjóðsins aukist sl. sex mánuði. Hann sagði helsta verkefni sjóðsins vera vegna uppbyggingar á orlofssvæði Sameykis á Úlfljótsvatni. Þar er verið að byggja ný orlofshús sem áður hefur verið kynnt félagsfólki og sjá má hér.
Gunnsteinn sagði að skuldir Orlfossjóðs væru litlar sem engar en gengið verður á eignir sjóðsins að einhverju leyti en mun svo ná jafnvægi á ný.
Umræður sköpuðust um sölu orlofseigna félagsins. Sitt sýnist hverjum meðal trúnaðarmanna um hvaða eignir eru seldar og hvaða stefnu stjórn Orlofssjóðs setur í orlofsmálum félagsins. Gunnsteinn svaraði því til að stjórn Orlofssjóðs leggur sig fram í að bjóða félagsfólki upp á góða þjónustu; hitaveitu, aðgengi og samþættingu orlofssvæðana sem skapar hægkvæman rekstur orlofshúsanna. Auk þess eru allar ákvarðanir um sölu og kaup orlofshúsa teknar í gegnum fjölskipað stjórnvald kosinna fulltrúa í stjórn Orlofssjóðs og stjórn Sameykis.
Ferðatími starfsfólks
Jenný Þórunn Stefánsdóttir, lögfræðingur hjá Sameyki, fjallaði um dóm þar sem deilt var um ferðatíma flugvirkja. Í málinu hafði flugvirki hjá Samgöngustofu stefnt íslenska ríkinu og sett fram þessa viðurkenningarkröfu. Þannig fór viðkomandi fram á að sá tími frá því hann yfirgaf heimili sitt og þar til hann komst á áfangastað erlendis, og öfugt, væri vinnutími sem ætti að greiða fyrir.
Jenný Þórunn Stefánsdóttir, lögfræðingur hjá Sameyki.
Fyrir héraðsdómi hafði dómstóllinn leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins sem taldi þá vinnutímatilskipun sem hefur verið innleidd hér á landi og lögfest með vinnuverndarlögunum tryggja þennan rétt. Héraðsdómur hafði því komist að þeirri niðurstöðu að ferðatími starfsmanns á vegum vinnu sinnar til annars áfangastaðar en hefðbundinnar starfsstöðvar teljist vera vinnutími hans og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu og Hæstiréttur sömuleiðis.
Í tilfelli starfsmannsins sem um ræðir voru ákvæði í kjarasamningi hans sem fólu í sér ákveðnar álagsgreiðslur vegna ferðalags á vegum vinnu og slík ákvæði má finna í mörgum kjarasamningum en þar sem þau ákvæði fólu í sér lakari rétt heldur en lög tryggja voru þau ekki talin geta gilt gagnvart starfsmanninum.
Niðurstaðan þýðir í raun að starfsfólk sem ferðast á vegum vinnu sinnar og er lengur á ferðalagi til áfangastaðar heldur en dagleg vinnuskylda þeirra segir til um eigi að fá greidda yfirvinnu fyrir þann tíma sem fer umfram þeirra vinnuskyldu. Málið verður að teljast fordæmisgefandi fyrir bæði opinberan og almennan vinnumarkað.
Sagði Jenný Þórunn að með dóminum væru forsendur fyrir kerfisbreytingum á vinnumarkaðnum þegar fólk ferðast á vegum vinnunnar, bæði hvað varðar ferðatímann sjálfan, hvíldartíma og afturvirkar kröfur launafólks.
Samantekt úr hópavinnu og Stofnun ársins
Jakobína Þórðardóttir, deildarstjóri félagsdeildar, rifjaði upp niðurstöður vorfundar þar sem trúnaðarmenn kölluðu eftir ýmsum breytingum hvað varðar fræðslu og skipulag trúnaðarmannaráðsfundanna.
Jakobína Þórðardóttir, deildarstjóri félagsdeildar.
Að lokum fjallaði Jakobína um Stofnun ársins sem er mannauðskönnun á opinberum vinnumarkaði. Könnunin gefur greinargóðar upplýsingar um stöðuna í mannauðsmálum á vinnustöðunum. Hún hvatti trúnaðarmenn til að tala um könnunina á sínum vinnustöðum og hvetja samstarfsfólk til þátttöku í könnuninni til að bæta mannauðsmál vinnustaðanna.
Niðurstöður úr mannauðskönnuninni verða kynntar 13. febrúar með hátíðlegum hætti á Stofnun ársins viðburði á Hilton Nordica.
Jóhanna Þórdórsdóttir, fræðslustjóri hjá Sameyki.
Jóhanna Þórdórsdóttir, fræðslustjóri hjá Sameyki, fræddi trúnaðarmenn um fjölbreytt námskeið og fræðslu sem þeim er boðið upp á hjá Sameyki og hvatti þá til að taka frá tíma á haustönn til að sinna fræðlu sér og öðrum til heilla.