Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

11. október 2024

Ingibjörg Sif Sigríðardóttir er nýr formaður Sameykis

Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, formaður Sameykis. Ljósmynd/BIG.

Ingibjörg Sif Sigríðardóttir hefur tekið við formennsku í Sameyki eftir að Þórarinn Eyfjörð vék fyrr í dag sem formaður félagsins. Hún segir að nú taki við ákveðið endurreisnarstarf í félaginu í ljósi þess að fyrrum formaður félagsins náði ekki kjöri á þingi BSRB til 1. varaformanns BSRB. Hún þakkar Þórarni fyrir störf sín í þágu félagsins og óskar honum fyrir hönd stjórnar félagsins farsældar í framtíðinni.

„Samstarf Sameykis og BSRB sem er leiðandi afl í þágu opinberra starfsmanna tel ég vera mjög mikilvægt. Bandalagið hefur sinnt mikilvægu hlutverki á þeim vettvangi og samstarf við BSRB, formenn aðildarfélaganna og ekki síst formann BSRB er félaginu nauðsynlegt í hagsmuna- og réttindabaráttu fyrir okkar félagsfólk. Sameyki á nú einn fulltrúa, Gunnstein R. Ómarsson, í stjórn BSRB sem kjörinn var á þingi þess, en venjan hafi verið að formaður Sameykis og áður SFR og StRv hafi verið kjörinn 1. varaformaður bandalagsins og átt í samstarfi við heildarsamtökin.“

Hún segir að um 38 prósent félagsfólks starfi hjá Reykjavíkurborg, rúmlega 35 prósent hjá ríki og hin starfi hjá öðrum sveitarfélögum og stofnunum. Meirihluti félagsfólks eru konur, eða um 63 prósent sem starfa flestar í grunnþjónustunni hjá Reykjavíkurborg og því sé líka ágætt að breyta aðeins áherslum í félaginu.

„Ég held að það sé alveg ágætt að forysta félagsins endurspegli meirihluta félagsfólks. Meirihluti í félaginu eru konur sem starfa í grunnþjónustunni, hópur kvennastétta á lágum launum en karlar líka auðvitað, gæta verður jafnræðis kynjanna að sjálfsögðu. Ég mun leggja mig fram í því að efla tengsl við grasrótina innan BSRB í hagsmunabaráttunni fyrir allt okkar félagsfólk,“ segir nýr formaður Sameykis.

Ingibjörg Sif segist þakklát fyrir traustið sem hún hefur fengið frá stjórn og starfsfólki Sameykis og hlakki til að mæta ábyrgðinni sem fylgir því að vera formaður félagsins.

„Ég mun starfa með stjórn og starfsfólki hjá Sameyki í þeim verkefnum sem framundan eru samkvæmt lögum félagsins. Hjá félaginu starfar mjög öflugur hópur sérfræðinga og verkefnin eru fjölbreytt. Framundan er að klára gerð þeirra kjarasamninga og stofnanasamninga sem eftir eru, en kjaradeild félagsins er skipuð öflugu teymi sem þekkir til verka. Gunnsteinn R. Ómarsson, skrifstofustjóri, hefur leitt mjög gott og kraftmikið starf ásamt starfsfólki. Hann hefur haldið vel utan um málin og á þakkir skyldar sem og allt starfsfólk félagsins. Störf og skyldur sjóða, fræðslumála, kynningarmála og annara félagsmála er mikilvægt að gangi vel fyrir sig og gaman verður að fylgjast með þeim framgangi. Sama gildir um orlofsmálin. Það er að mörgu að hyggja en með svo gott starfsfólk og öfluga stjórn félagsins hef ég ekki miklar áhyggjur af framtíðinni,“ segir Ingibjörg Sif Sigríðardóttir.