Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

16. október 2024

„Leiðin fram á við liggur í því að skapa nýja samfélagssátt um efnahagsstefnu“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, ávarpar 46. þing ASÍ í morgun. Mynd/skjámynd.

Sú nýlunda var gerð á 46. þingi ASÍ sem haldið er í dag, að bjóða gestum að ávarpa þingið á fyrsta degi þess. Það gerði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, af því tilefni og sagði í ræðu sinni að leiðin fram á við liggi í því að skapa nýja samfélagssátt sem fælist í nýrri efnahagsstefnu. Þá vísaði hún í lög ASÍ frá 1916 þar sem segir að tilgangur sambandsins miði að því að bæta hag alþýðunnar, bæði andlega og líkamlega.

Hún sagði að ASÍ byggi á aldar gömlum grunni, og með harðri baráttu félaga innan ASÍ hafi verið lagður sá grunnur að bæta líf þúsunda og tryggja bjartari framtíð kynslóðanna. Sonja Ýr sagði að sú barátta sem þeir sem á undan hafi gengið í verkalýðsbaráttunni veitir þeim sem nú standa í þeirra sporum áður innblástur.

„Það er mikilvægt að vita hvaðan við erum að koma sem er leiðarljós inn í framtíðina. Þing ASÍ er mikilvægur vettvangur til að byggja upp sameiginlega framtíðarsýn. Framtíð þar sem hlustað er á kröfur vinnandi fólks, þar sem verkalýðshreyfingin er sterkari en nokkru sinni fyrr með tilheyrandi áhrifum á samfélag sem byggt er á velferð, jafnrétti og jöfnuði. Við höfum of lengi búið við stefnu stjórnvalda sem byggist á úreltum hagfræðikenningum sem leiðir til þess að verðmætunum frá heimilunum og litlum fyrirtækjum er dreift til þeirra sem mestar eigningar eiga, græða mest á nýtingu sameiginlegra auðlinda, finna minnst fyrir verðbólgunni og græða mest á háu vaxtastigi.

Leiðin fram á við felst í nýrri samfélagslegri sátt sem liggur í nýrri efnahagsstefnu. Sátt um að skapa skuli mannsæmandi laun fyrir öll, og dreifingu verðmæta í gegnum réttláta og framsækna skattastefnu þar sem félagslegar aðgerðir eru í forgrunni og niðurskurðarstefnan heyrir sögunni til,“ sagði formaður BSRB þegar hún ávarpaði þingið.

Sonja Ýr sagði að það hafi verið styrkur ASÍ og BSRB í gegnum árin að bandalögin hafi lagt áherslu á pólitík.

„Það sjáum við t.d. á fyrstu stefnumálunum sem voru á dagskrá sambandsins. Það voru skattamál, bankamál, samvinnumál, sjávarútvegsmál, alþýðumenntun og fátæktarlöggjöf. Það hefur verið styrkur okkar heildarsamtaka, ASÍ og BSRB, í áranna rás að við sameinumst um grunngildi sem hverfast um samstöðu, samtryggingu og samkennd. Við leggjum áherslu á félagslegt réttlæti, jöfnuð og jafnrétti. Stefnu um mennsku sem við sameinumst um [...]. Við skulum hafa þetta í huga núna, í aðdraganda kosninga, þegar það er viðbúið að gamall söngur hefjist; að við, samtök launafólks, höfum ekkert að gera í pólítíska umræðu.

Við erum pólítísk, verkalýðspólítísk, munum alltaf vera það og munum vonandi alltaf vera það í framtíðinni,“ sagði Sonja Ýr.

Hún sagði í lok ræðu sinnar við þingheim, að sterk verkalýðshreyfing byggir upp sterkt samfélag fyrir öll sem í því búa.

„Að lokum vil ég hvetja ykkur til að vera framsækin og stórhuga á þessu þingi,“ sagði formaður BSRB og sté úr pontu.

Hægt er að horfa á 46. þing ASÍ hér fyrir neðan. Hægt er að skruna að upphafi þings eða milli atriða á ræðu Sonju í spilaranum hér fyrir neðan.