24. október 2024
Sameyki sendir konum og kvár baráttukveðjur á Kvennaverkfallsdaginn
Frá Kvennaverkkfallsdeginum 24. október á síðasta ári. Ljósmyndir/BSRB
Baráttudagur kvenna, Kvennaverkfallsdagurinn, er í dag og af því tilefni sendir Sameyki baráttukveðjur til allra þeirra kvenna og kvár sem berjast fyrir málefnum þeirra.
Dagurinn sem jafnan er nefndur Kvennafrídagurinn eða Kvennaverkfallið var fyrst haldinn árið 1975 í tilefni af því að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna helgaði árið málefnum kvenna. Um 90 prósent kvenna á Íslandi lögðu niður störfin sín til að sýna fram á mikilvægi kvenna á vinnumarkaði og til að krefjast sömu réttinda og launakjara og karlar. Var talið að yfir 25.000 konur hafi komið saman á baráttufundi og íslensk kvenréttindasamtök vöktu athygli innanlands og í erlendum fjölmiðlum.
Á síðasta ári héldu konur og kvár stærsta útifund sem haldinn hefur verið á Íslandi þegar allt að 100.000 konur og kvár söfnuðust saman á Arnarhóli og þúsundir til viðbótar söfnuðust saman á baráttufundum utan höfuðborgarinnar. Yfirskrift Kvennaverkfallsins var Kallarðu þetta jafnrétti? og sneru meginkröfur verkfallsins að endurmati á virði kvennastarfa og útrýmingu kynferðisofbeldis.
Félagsfólk í Sameyki eru að stórum meirihluta konur og margar þeirra vinna innan heilbrigðis- og umönnunargeirans sem greiðir hvað lægstu launin.
Á þessum degi hefur reglulega verið blásið til fundahalda og baráttuganga. Ekki er skipulagður útifundur eða ganga í ár en viðburður er haldinn í tilefni dagsins. Að að þeim viðburði standa 34 samtök femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks í Bíó Paradís kl. 18:30 í dag. Þar mun framkvæmdastjórn Kvennaárs 2025 kynna sameiginlegar kröfur gagnvart stjórnvöldum, nákvæmlega einu ári eftir Kvennaverkfall og stærsta baráttufund Íslandssögunnar.