1. nóvember 2024
Mannauðs- og starfsumhverfiskönnunin Stofnun ársins 2024 farin af stað
Nú er Sameyki að fara af stað með mannauðs- og starfsumhverfiskönnunina Stofnun ársin 2024 sem framkvæmd er af Gallup. Tilgangur könnunarinnar er að styrkja starfsumhverfi starfsfólks í almannaþjónustu. Hún veitir ítarlegar upplýsingar um stöðu mála, þ.e. styrkleika og áskoranir í starfsumhverfinu sem nýta má til umbótastarfs á vinnustaðnum.
Þátttakendur eru spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar eða starfsstaðar, ánægju og stolt og jafnrétti.
Til þess að stofnanir og vinnustaðir mælist inn í könnuninni þarf að nást ákveðið svarhlutfall. Vakin er athygli á því að hægt er að svara könnuninni á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku.
Nú þegar er Gallup byrjað að senda út könnunina til félagsfólks með tölvupósti. Félagsfólk í Sameyki getur tekið þátt í könnuninni á Mínum síðum Sameykis.