13. nóvember 2024
Álag á starfsfólk í almannaþjónustunni rætt á trúnaðarmannafundi
Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, formaður Sameykis, setti fund hjá trúnaðarmönnum sem haldinn var í félagamiðstöðinni í BSRB húsinu í dag.
Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, formaður Sameykis, setti fund hjá trúnaðarmönnum sem haldinn var í félagamiðstöðinni í BSRB húsinu í dag. Í upphafi fundar bauð hún trúnaðarmenn velkomna og lýsti ánægju sinni með nýtt fyrirkomulag fundanna; að skipta þeim upp eftir hópum eftir því hvar félagsfólk starfar í almannaþjónustunni. Að þessu sinni komu trúnaðarmenn frá stofnunum ríkis og sjálfseignarstofnana á fundinn.
Jenný Stefánsdóttir, lögfræðingur í kjaradeild Sameykis og Ingólfur Björgvinsson, deildarstjóri kjaradeildar Sameykis, fluttu erindi og fóru þau yfir stöðu kjarasamninga og stofnanasamninga. Jenný reifaði ýmis ákvæði innan kjarasamningsins við ríkið hvað varðar veikindaréttinn og dómsmál þar að lútandi. Ingólfur sagði frá stöðunni í stofnanasamningum.
Að loknum erindum þeirra var skipað í umræðuhópa, og að þeim loknum voru kynntar niðurstöður úr hópavinnunni.
Áskoranir sem blasa við trúnaðarmönnum á vinnustöðunum
Fram kom að hjá stofnunum ríkisins, Hugverkastofunni, Fangelsismálastofnun, Skattinum, Landsspítalanum, Menntastofnun námsmanna og Matvælastofnun, að helstu áskoranirnar væru m.a. fjársvelti, langtímaveikindi, mannekla, mikið vinnuálag, skipulags- og tæknibreytingar sem valda álagi og veikindi vegna álags í starfi sem aftur veldur auknu álagi á annað starfsfólk. Þá hafa trúnaðarmenn áhyggjur af því að gervigreind muni fækka starfsfólki og því muni fylgja aukið starfsálag - ekki síst hjá tæknifólki.
Einnig kom fram í hópavinnunni að kröfur samfélagsins til almannaþjónustunnar hafa aukist, sem kallar á meira vinnuafl til að geta veitt þjónustu með skilvirkum og góðum hætti hjá stofnunum. Trúnaðarmenn greindu frá því að vinnustaðir stofnana ríkisins væru undirmannaðir. Sérstaklega væri undirmönnum og álag slæmt hjá Landsspítalanum og þar væri undirmannað á öllum deildum spítalans.
Miklar breytingar eiga oft á tíðum sér stað þegar stofnanir eru sameinaðar sem veldur t.d. félagslegum erfiðleikum eins og skort á samheldni þegar þær eru miklar eða örar. Allt áskoranir sem geta valdið erfiðleikum í þjónustunni sem þær veita.
Að lokum ræddu trúnaðarmenn um að stjórnendur og yfirmenn á vinnustöðunum geta verið mikil áskorun fyrir starfsfólk þegar kemur að skipulagi og samskiptum. Þess vegna skiptir miklu máli að viðhorf yfirmanna til þessa mannlega þáttar starfsfólks sem snýr að veikindum og álagi sé heilbrigt. Góðir yfirmenn sem sýna starfsfólkinu nærgætni, alúð og skilning er nauðsyn, og slík framkoma, þar sem skilningur yfirmanna ríkir, getur skipt sköpum í bataferli starfsfólks.