14. nóvember 2024
Tímarit Sameykis á leið til félagsfólks
Tímaritið er tileinkað efnahagsmálum og fjallað um þau frá mörgum sjónarhornum.
Fjórða og síðasta tölublað Tímarits Sameykis á þessu ári er komið úr prentun og er á leið í pósti til félagsfólks öðru hvoru megin við helgina.
Tímaritið er tileinkað efnahagsmálum og fjallað um þau frá mörgum sjónarhornum.
Formaður Sameykis, Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, er í forsíðuviðtali og segir að leiðarljós Sameykis sé ávallt félagsfólkið. Hún muni beita sér fyrir samstarfi og samstöðu í baráttunni fyrir betri kjörum og að verja áunnin réttindi, sérstaklega hjá þeim hópum sem eru á lægstu laununum, ekki aðeins bættum kjörum heldur réttum kjörum. Þá segir hún skipta máli að beita sér í verkalýðspólitíkinni, hvernig auðnum sé skipt með réttlátum hætti því launafólk skapi verðmætin.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB skrifar um verkalýðspólitík og kosningarnar sem fram undan eru. Hún spyr hvort sett verði „X við einstaklingshyggju eða samstöðu?“
„Stjórnmálaflokkarnir sem byggja hugmyndafræði sína á einstaklingshyggju leggja áherslu á niðurskurð, að ríkissjóður skuldi lítið, „að hleypa einkaframtakinu að“ eða auka einkavæðingu og „valfrelsi“, að selja ríkiseignir, að fækka þurfi ríkisstofnunum og vinda ofan af því sem þeir telja of mikla fjölgun starfsfólks ríkisins. Sumir segja einfaldlega báknið burt.“
Clara E. Mattei, prófessor í hagfræði, er í viðtali í tímaritinu. Þar segir hún að niðurskurðarstefnan, sem er þekkt stefna í vestrænum löndum og víðar, sé inngróin í erfðamengi kapítalismans og sé fyrst og fremst pólitísk stefna sem geti leitt til fasisma. Hún segir að niðurskurður sé notaður af hægri og öfgahægri stjórnmálum til að færa fjármagninu meiri peninga á meðan almenningur tekur á sig aukinn kostnað; verðbólgu, hátt vaxtastig, hækkun húsnæðislána og hækkanir á neytendamörkuðum.
Indriði H. Þorláksson, hagfræðingur og fyrrv. ríkisskattstjóri skrifar og rýnir í viðtal við Clöru E. Mattei um niðurskurðarstefnuna. Hann segir í grein sinni að margt í þróun þessara mála á síðustu árum styðji kenningar hennar.
„Einhliða niðurskurði hefur fyrst og fremst verið beitt af ríkisstjórnum flokka sem hafa hagsmuni fjármagns og fyrirtækja að leiðarljósi. Með niðurskurði opinberrar starfsemi verður umfang einkafyrirtækja meira, framboð á vinnuafli fyrir þau eykst og staða þeirra á vinnumarkaði verður sterkari. Hluti launa í VLF lækkar en hluti fjármagns vex.“
Þórður Snær Júlíusson, fyrrv. ritstjóri Heimildarinnar og áður Kjarnans skrifar um efnahagsstjórn undanfarin ár og segir að ríkisstjórn síðustu ára hafi ráðist í ófjármagnaðar skattalækkanir sem fyrst og fremst hafi gagnast breiðu bökunum í þjóðfélaginu.
„Fyrir vikið hafa tekjur ríkissjóðs ekki dugað fyrir útgjöldum árum saman og velferðarkerfin hafa verið fjársvelt. Afleiðingin af óstjórninni varð mikil verðbólga og svo svimandi háir vextir, sem hafa lagst sem ofurskattur á venjuleg íslensk heimili. Þeim ofurskatti þarf að lyfta.“
Þá skrifa forystumenn stjórnmálaflokkanna, Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki, Björn Leví Gunnarsson, Pírötum, Inga Sæland, Flokki fólksins, Kristrún Frostadóttir, Samfylkingu, Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsóknarflokki, Svandís Svavarsdóttir, Vintri grænum, Unnur Rán Reynisdóttir, Sósíalistaflokki og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Viðreisn, um efnahagsmál og almannaþjónustuna á Íslandi og hver áhersla flokkanna sé á almannaþjónustuna í landinu.
Margt annað má lesa um í tímaritinu og fastir liðir eru á sínum stað: Af vettvangi Sameykis, Skop Halldórs Baldurssonar, krossgátur og Sudoku, verðlaunahafi krossgátunnar o.m.fl.