19. nóvember 2024
Skattalækkanir hafi gagnast fyrst og fremst breiðu bökunum
Þórður Snær Júlíusson, fyrrv. ritstjóri Heimildarinnar og áður Kjarnans skrifar í Tímarit Sameykis um efnahagsstjórn síðustu ára og segir að ríkisstjórn síðustu ára hafi ráðist í ófjármagnaðar skattalækkanir sem gagnast hafi fyrst og fremst breiðu bökunum í þjóðfélaginu. „Fyrir vikið hafa tekjur ríkissjóðs ekki dugað fyrir útgjöldum árum saman og velferðarkerfin hafa verið fjársvelt. Afleiðingin af óstjórninni varð mikil verðbólga og svo svimandi háir vextir, sem hafa lagst sem ofurskattur á venjuleg íslensk heimili. Þeim ofurskatti þarf að lyfta.“
Þá segir Þórður Snær í grein sinni að byrðarnar lendi misjafnlega á kynslóðunum og verst á ungu fólki. „Þessi staða hefur bitnað gríðarlega hart á skuldurum landsins, og sérstaklega barnafjölskyldum og þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Það er enda þannig að lækningin við verðbólgudraugnum bitnar alltaf á þeim sem minnst hafa á milli handanna áður en hún nær að tempra neyslu þeirra sem raða sér í efstu tekjutíundirnar og bera ábyrgð á flestum utanlandsferðunum.“
Lesa má grein Þórðar Snæs hér.