20. nóvember 2024
Jafnréttismál verði í stjórnarsáttmála næstu ríkisstjórnar
Frá fundinum í Iðnó í gær.
Á fundi Kvennaárs 2025 sem haldinn var í Iðnó í hádeginu í gær með forystukonum stjórnmálaflokkanna kom fram að þrátt fyrir þrotlausa baráttu kvenna í meira en heila öld búa konur á Íslandi enn við misrétti og ofbeldi – Ísland á langt í land þar til fullu jafnrétti er náð. Yfirskrift fundarins var Jafnréttismál eru kosningamál.
Kristín Ástgeirsdóttir, fv. Alþingiskona og Ragnheiður Davíðsdóttir, varaformaður Kvenréttindafélags Íslands stýrðu fundinum og í upphafi máls sagði Kristín að Ísland ætti enn langt í land með að ná fullu jafnrétti kynjanna. Vitnaði Kristín í orð fyrrum forsætisráðherra Írlands, Mary Robinson, í viðtali á RÚV um framlag Íslands til jafnréttismála. Þar sagði hún að Ísland sé í fararbroddi þegar litið er til jafnréttismála.
„Við lítum mikið til Íslands þegar kemur að jafnréttismálum sem fyrirmynd. Við þurfum að líta á kynjamál í víðara samhengi, bæði fyrir karla og konur, stúlkur og drengi. Opna miklu meira svigrúm til að huga að því sem við eigum sameiginlegt þegar kemur að kynjajafnrétti. Að gera drengjum kleift að finnast þeir æskilegir, hluti af starfinu, og að körlum finnist þeir fái að vera meira með í jafnréttisbaráttunni. Ísland getur verið góð fyrirmynd í þeim efnum,“ sagði mary Robinson.
Framkvæmdastjórn Kvennaárs 2025 hefur lagt fram kröfur um lagabreytingar og aðgerðir um launajafnrétti, ólaunaða vinnu og kynbundið ofbeldi sem fjallað var um á fundinum. Krafist var að jafnréttismál verði gert hærra undir höfði og verði málaflokkurinn inn í stjórnarsáttmála næstu ríkisstjórnar.
Þær konur sem tóku til máls á fundinum voru: Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Pírötum Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sósíalistum, Svandís Svavarsdóttir, VG, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Viðreisn, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingu, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Sjálfstæðisflokki, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Framsóknarflokki, Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, Miðflokki, Kolbrún Baldursdóttir, Flokki fólksins.
Á fundinum voru eftirfarandi kröfur ræddar, að leiðrétta kerfisbundið vanmat á kvennastörfum og að tryggja að hægt verði að bera saman jafnverðmæt störf þvert á vinnustaði, að klára vinnu við heildstætt virðismatskerfi og endurskoða starfsmat sveitarfélaga, að tryggja sambærilegt kerfi fyrir viðbótarlaun, koma á samningaleið sem auðveldar einstaklingum að reisa jafnlaunakröfur. Setja reglur um launagagnsæi byggða á fyrirmynd ESB, en taka sérstakt tillit til íslenska vinnumarkaðarins, og tryggja virkt eftirlit.
Þá kom fram að konur þurfa oftar að minnka við sig launaða vinnu til að sinna ólaunaðri vinnu innan veggja heimilisins. Yfir helmingur barna fær ekki leikskólapláss fyrr en eftir 18 mánaða aldur. Umönnunarbilið bitnar verr á tekjum, tækifærum og lífeyrisréttindum mæðra en feðra. Tekjur mæðra lækka um 30-50% við fæðingu barns og á þriðja ári eru þær enn umtalsvert lægri en áður. Tekjur feðra lækka um 3-5% við fæðingu en eftir ár eru þær orðnar þær sömu og áður. Einstæðar mæður eiga mjög erfitt með að ná endum saman. Kröfurnar Kvennaárs eru að næsta ríkisstjórn bergðist við þessu með að lögfesta rétt barna til leikskólavistar strax að loknu fæðingarorlofi, afnema skerðingar á lægstu greiðslum í fæðingarorlofi og tryggja að fæðingarorlofsgreiðslur verði aldrei lægri en lágmarkslaun.
Á fundinum var einnig rætt um kynbundið ofbeldi. Um 40% kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni, en trans fólk, þ.m.t. kvár og annað kynsegin fólk, fatlaðar konur og konur af erlendum uppruna eru líklegri til að verða fyrir ofbeldi en önnur. 15% stúlkna í 10. bekk og 6% stráka hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi annars unglings. Ofbeldi í netheimum getur verið jafn alvarlegt og ofbeldi í raunheimum, en 58% stúlkna og 35% drengja hafa orðið fyrir stafrænu kynferðisofbeldi. Þau sem sinna ungum brotaþolum kynferðisofbeldis sjá í vaxandi mæli sterk tengsl á milli kláms og lýsinga þolenda á ofbeldinu. Neysla kláms meðal barna og unglinga er orðin svo almenn að sú upplýsingagjöf er margföld á við raunverulega kynfræðslu. Fólk sem vinnur með börnum og unglingum sér áþreifanleg áhrif kláms á samskipti þeirra – markaleysi, virðingarleysi, óvelkomnar snertingar og gróft klámtal. Auk þess þarf að bregðast við hatursorðræða og fordóma gagnvart hinsegin ungmennum með viðeigandi fræðslu í skólum. Kröfur kvenna eru að brotaþolum sé tryggð fullnægjandi þjónusta, s.s. túlkaþjónustu og aðgengi, í samskiptum við opinberar stofnanir og að endurskoða þurfi lög um nauðganir og önnur kynferðisbrot og annað kynbundið ofbeldi, til að fanga meðal annars brot í netheimum og á samskiptamiðlum.
Hægt er að horfa á fundinn sem fram fór í gær hér.