21. nóvember 2024
Forystumenn flokkanna tjá sig um almannaþjónustuna og efnahagsmál
Í Tímariti Sameykis skrifa forystumenn stjórnmálaflokkanna um almannaþjónustuna á Íslandi og hver áhersla flokkanna sé á almannaþjónustuna í landinu. Þá var óskað eftir afstöðu þeirra til efnahagsmála og að bregða ljósi á stefnu flokkanna.
Ítrekað hefur BSRB bent á að ójöfnuður hafi aukist hér á landi undanfarin ár, m.a. vegna aukinna fjármagnstekna, hækkandi eignaverðs og niðurskurðar til velferðarmála og opinberrar grunnþjónustu.
Lesa má í svörum þeirra að almannaþjónustan sé mikilvæg og að styrkja þurfi innviðina – en hvernig? Á að gera það með því að einkavæða frekar í almannaþjónustunni, beita niðurskurðarhnífnum, „beita aðhaldi“, segja upp starfsfólki, láta starfsfólk hlaupa hraðar og hlífa fjármagninu, halda áfram niðurskurðarstefnunni? Eða á ríkið að nýta betur tekjustofna sína eins og BSRB hefur ítrekað lagt til með að hækka skatta á þá allra tekjuhæstu, líka þá sem nýta auðlindir þjóðarinnar?
Inga Sæland, Flokkur fólksins: „Við viljum styrkja opinbera þjónustu með því að fjárfesta í þeim mikla mannauði sem finnst svo víða í því fólki sem vinnur fyrir bæði ríki og sveitarfélög og undirstofnanir þeirra.“ Lesa má grein Ingu Sæland hér.
Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsóknarflokki: „Opinber störf eru stór breyta í efnahagslegu tilliti. Það er mikilvægt að fjárveitingar séu í samræmi við raunverulegar þarfir samfélagsins og að fjármagnið sé nýtt sem best.“ Lesa má grein Sigurðar Inga hér.
Björn Leví Gunnarsson, Píratar: „Við verðum að vinna heiðarlega að því að sinna lögbundnum verkefnum og til þess að gera það þá þurfum við að fjármagna lögbundna þjónustu – í þágu þeirra sem þurfa á henni að halda.“ Lesa má grein Björns Leví hér.
Kristrún Frostadóttir, Samfylking: „Raunar hefur þetta verið rauður þráður í vinnubrögðum fráfarandi ríkisstjórnar í velferðarmálum: Kostnaði við grunnþjónustu er velt yfir á sveitarfélög og óvissu viðhaldið um hvar fjárhagsleg og fagleg ábyrgð skuli liggja. Þetta er kostnaðarsamt fyrir samfélagið allt.“ Lesa má grein Kristrúnar hér.
Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki: „Við jöfnun kjaranna eru því sömuleiðis tækifæri til að skapa sveigjanleika í rekstri hins opinbera sem eykur skilvirkni, nýsköpun og stuðlar að betri kjörum starfsfólks til lengri tíma. [...] Við verðum þess vegna að nýta tækifærin til að bæta opinberan rekstur, taka tækninni opnum örmum og auka skilvirkni hvar sem hægt er.“ Lesa má grein Bjarna hér.
Unnur Rán Reynisdóttir, Sósíalistaflokkurinn: „Útvistanir leiða eingöngu til lægri launa, verra starfsumhverfis sem og verri þjónustu. Í leiðinni þarf að tryggja að bæði starfsaðstæður og kjör opinberra starfsmanna séu góð.“ Lesa má grein Unnar Ránar hér.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Viðreisn: „Við vitum líka sem er að opinberir starfsmenn eiga sífellt erfiðara að ná endum saman í þeirri spilaborg vaxta og verðbólgu sem okkur hefur verið boðið upp á á undanförnum árum.“ Lesa má grein Þorgerðar Katrínar hér.
Svandís Svavarsdóttir, Vinstri græn: „Því miður er umræðunni um þessi mál stundum snúið á hvolf og því haldið fram að það sé einkageirinn einn sem búi til verðmætin, og ef fjármagnseigendur hafa fengið nóg þá megi af náð og miskunn deila út til launafólks og svo mögulega greiða til samfélagsins í sameiginleg verkefni, en þó með semingi.“ Lesa má grein Svandísar hér.