21. nóvember 2024
Niðurskurður notaður til að færa fjármagninu meiri peninga
Clara E. Mattei, prófessor í hagfræði og lektor við The New School for Social Research í New York. Ljósmynd/Anton Brink
Prófessor í hagfræði, Clara E. Mattei, er í viðtali í nýjasta Tímariti Sameykis. Í viðtalinu segir hún að niðurskurðarstefnan, sem er þekkt stefna í vestrænum löndum og víðar, sé inngróin í erfðamengi kapítalismans og sé fyrst og fremst pólitísk stefna sem geti leitt til fasisma. Clara segir að niðurskurður sé notaður af hægri og öfgahægri stjórnmálamönnum til að færa fjármagninu meiri peninga á meðan almenningur tekur á sig aukinn kostnað; verðbólgu, hátt vaxtastig, hækkun húsnæðislána og hækkanir á neytendamörkuðum. Kapítalisminn þrífst á niðurskurðinum þegar fjársveltistefnunni er beitt.
Clara segir að stéttarfélög verði að vera á verði fyrir kapítalismanum og tala gegn niðurskurði og fjársveltistefnu. Stéttarfélög séu grasrótarhreyfingar sem miðli röddum launafólks og lýðræðis.
„Grasrótarhreyfingar þurfa að vera vakandi. Staðreyndin er sú að hagkerfið okkar, kapítalisminn, kýs minna lýðræði. Þannig að leiðin til að aflýðræðisvæða efnahaginn er að aflýðræðisvæða samfélagið, grasrótarhreyfingar fólks, ekki síst verkalýðsfélög sem tala röddum launafólks. Þannig virkar kapítalíska kerfið þegar efnahagslífið er ekki lýðræðislegt.“
Þá segir Clara E. Mattei að nauðsynlegt sé að almenningur skilji að efnahagslífið er fyrst og fremst pólíiískt og að hagkerfið sé fólkið sem skapar verðmætin. Án niðurskurðarstefnu stjórnvalda muni kapítalisminn hrynja.
„Þegar við skiljum að efnahagslífið er pólitískt, skiljum við um leið að efnahagskerfið sem við búum við er í grunninn byggt upp af samfélaginu, að hagkerfið er við, að fólkið myndar hagkerfið og að launafólk er uppspretta verðmætanna. Án niðurskurðar myndi þetta kapítalíska kerfi hrynja vegna þess að fólk hefði meiri tíma og rými til að krefjast betri réttinda og íhuga aðra valkosti.
Lesa má allt viðtalið við Clöru E. Mattei hér.