22. nóvember 2024
Segja samfélagið standa á krossgötum
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB á sameiginlegum fundi með forystufólki stjórnmálaflokkana.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ skrifa grein á Vísi í dag og segja að samfélagið standi á krossgötum.
„Við stöndum á krossgötum. Nú þarf að hefja uppbyggingu í kjölfar tímabils sem hefur einkennst af viðbragði við óvæntum áskorunum eins og Covid, eldgosum og í kjölfarið verðbólgu og háum vöxtum. Hefja þarf uppbyggingu félagslegra innviða og tryggja velferð og öryggi fyrir öll. Valkostirnir sem stjórnmálaflokkarnir hafa teiknað upp skiptast í megindráttum í tvennt; enn frekari einstaklingshyggja eða aukin samstaða og félagshyggja. Það verður því meira að komast að í umræðunni en verðbólga og vextir enda kosið til fjögurra ára.
Yfir hundrað ára saga ASÍ og BSRB er samofin samfélagsþróuninni og við höfum bæði reynslu af því að starfa náið með ríkisstjórnum að heildarhagsmununum en sömuleiðis af því að þurfa að veita ríkulegt aðhald þeim ríkisstjórnum sem leggja meiri áherslu á sérhagsmuni fárra eða fjármagnseigenda á kostnað sameiginlegra hagsmuna. Okkar stærstu sigrar hafa oft kostað mikil átök og miklar fórnir. [...] Frá aldamótum hefur ríkt aðhalds- og niðurskurðarstefna á stofnunum í velferðarkerfinu. Á sama tíma hefur átt sér stað veruleg fólksfjölgun. Þjóðin er einnig að eldast og lifa lengur ásamt því að fjölgun ferðamanna hefur aukið álag á heilbrigðisþjónustuna og biðlistar lengjast eftir hjúkrunarheimilum. Í menntakerfinu hefur álag aukist vegna aukinna og þyngri félagslegra þarfa barna og ungmenna.“
Lesa má grein þeirra á Vísi hér.
Sjá má ljósmyndir af sameiginlegum kosningafundi BSRB og ASÍ með forystufólki stjórnmálaflokkanna hér.
Upptaka af sameiginlegum kosningafundi BSRB og ASÍ á Hótel Nordica má horfa á í spilaranum hér fyrir neðan.