25. nóvember 2024
Mun beita sér fyrir samstarfi og samstöðu
Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, formaður Sameykis. Ljósmynd/BIG
Ingibjörg Sif Sigríðardóttir tók við formennsku hjá Sameyki 11. október sl. Hún var áður varaformaður Sameykis frá apríl 2021 og hefur setið í stjórn félagsins frá stofnun þess árið 2019, áður StRv frá árinu 2014. Samkvæmt lögum félagsins er kosið til formanns og í stjórn á þriggja ára fresti, næst í mars 2027.
Ingibjörg Sif er í viðtali í Tímariti Sameykis og ræðir um verkalýðsmál, ýmis réttindamál, styttingu vinnuvikunnar, leiðarljós félagsins og samstarfið innan BSRB.
„Það er mjög mikilvægt að innan okkar raða hjá BSRB séu náin tengsl og samvinna. Þannig náum við bestum árangri. Við getum ekki hugsað okkur að tilheyra ekki þeim krafti sem felst í samstöðunni innan bandalagsins. Ég á við, að við gerum ekkert ein þó að Sameyki sé stærsta stéttarfélagið innan bandalagsins. BSRB heldur á mikilvægum málum í baráttu opinberra starfsmanna fyrir bættum kjörum og ýmsum réttindum sem hafa áunnist. Samstarfið er okkur öllum mikilvægt, bæði okkur og öðrum stéttarfélögum innan bandalagsins.“
Þá segir Ingibjörg Sif að hún muni beita sér fyrir samstarfi og samstöðu í baráttunni fyrir betri kjörum og að verja áunnin réttindi, sérstaklega hjá þeim hópum sem eru á lægstu laununum, ekki aðeins bættum kjörum heldur réttum kjörum. „Í þessu sambandi skiptir máli að beita sér í verkalýðspólitíkinni, hvernig við skiptum auðnum með réttlátum hætti því launafólk skapar verðmætin.“
Lesa viðtalið við Ingibjörgu Sif, formann Sameykis, hér.