27. nóvember 2024
Sameining lífeyrissjóða
Lokaskrefið hefur verið stigið í sameiningu Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar við Brú lífeyrissjóð.
Lokaskrefið hefur verið stigið í sameiningu Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar við Brú lífeyrissjóð. Frá árinu 1998 hefur Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar (LsRb) verið í rekstri Brúar lífeyrissjóðs (áður Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga LSS).
Aðdragandi að sameiningu LsRb við Brú lífeyrissjóð spannar mörg ár en vegna krafna fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands um útvistun lífeyrissjóða var nú loks stigið lokaskrefið og sjóðirnir sameinaðir frá og með frá síðustu áramótum.
LsRb er lokaður sjóður og þegar þessi grein er rituð greiða innan við 130 sjóðfélagar iðgjöld í sjóðinn mánaðarlega. Sjóðurinn er með bakábyrgð Reykjavíkurborgar, sem þýðir að borgin tryggir greiðslu lífeyris úr sjóðnum.
Með sameiningunni má búast við að rekstur sjóðanna verði bæði skilvirkari og hagkvæmari. Á árinu 2023 var lagt mat á hver fjárhagsleg áhrif yrðu ef af sameiningu yrði en það mat sýndi lækkun á beinum og óbeinum kostnaði um 31 millj. kr. á ári.
Stjórnir LsRb og Brúar lífeyrissjóðs hafa samþykkt sameiningu sjóðanna sem og Sameyki og Borgarstjórn Reykjavíkurborgar. Samþykktirnar eru nú til afgreiðslu hjá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Hvað þýðir sameiningin fyrir sjóðfélagana?
Meginforsendan fyrir sameiningu sjóðanna er að réttindi og réttindaöflun sjóðfélaga til framtíðar eru óbreytt sem og bakábyrgð Reykjavíkurborgar. Stofnuð var ný deild innan Brúar lífeyrissjóðs sem fékk heitið R-deild. Rekstur, skuldir og skuldbindingar LsRb eru í þeirri deild og nær bakábyrgð Reykjavíkurborgar eðli málsins samkvæmt einungis til hennar. Sá kafli samþykkta LsRb sem fjallar um réttindi sjóðfélaga var fluttur óbreyttur yfir í samþykktir Brúar lífeyrissjóðs.
Réttindi sjóðfélaga LsRb eru því óbreytt og hefur sameiningin engin áhrif á réttindi sjóðfélaga LsRb.
Hafir þú spurningar um lífeyrisréttindi þín eða spurningar um sameiningu sjóðanna er hægt að hafa samband við Brú lífeyrissjóð. Skrifstofa sjóðsins er að Sigtúni 42, 105 Reykjavík og er opin alla virka daga frá kl. 09:00 – 16:00, en jafnframt hægt er að bóka viðtal hér. Einnig er hægt að hringja í síma 5 400 700 eða senda tölvupóst á lifeyrir@lifbru.is