Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

10. desember 2024

Kjaratölfræði, BSRB og starfssemi Sameykis rætt á trúnaðarmannaráðsfundi

Fundur í trúnaðarmannaráði Sameykis var haldinn í dag á Grand Hótel. Fjöldi trúnaðarmanna mætti á fundinn sem er sá síðasti á þessu ári og jafnframt sá fjölmennasti venju samkvæmt. Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, formaður Sameykis, hóf mál sitt á að bjóða trúnaðarmenn velkoma og kynna dagskrá fundarins sem er sá síðasti á þessu ári. Nýr formaður Sameykis kynnti sig formlega fyrir trúnaðarmannaráðinu og fór yfir störf sín síðan hún tók við formennsku í félaginu.

 

Störf trúnaðarmanna félaginu mjög mikilvæg
„Ég vil byrja á því að kynna mig stuttlega. Ég heiti Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, var áður varaformaður félagsins en tók við sem formaður Sameykis þann 11. október sl. eftir að Þórarinn Eyfjörð ákvað að víkja sem formaður og mun ég sinna því fram að næsta stjórnarkjöri 2027 samkvæmt lögum félagsins.“


Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, formaður Sameykis, á trúnaðarmannaráðsfundi Sameykis í dag.

Ingibjörg Sif sagði að það hafi verið mjög spennandi og skemmtilegt að hefja störf á skrifstofu Sameykis.

„Það hefur verið mjög spennandi og skemmtilegt að hefja störf á skrifstofu Sameykis. Verkefnin eru fjölbreytt, en starfsfólk félagsins er öflugt teymi sem frábært er að starfa með. Sameyki er í virku og öflugu samstarfi með BSRB sem er leiðandi afl í verkalýðsmálum opinberra starfsmanna á vinnumarkaðnum. Eins og þið vitið er BSRB leiðandi forystuafl í hagsmuna- og réttindabaráttu starfsmanna í almannaþjónustu og aðal baráttumál þess er að stuðla að bættu velferðarsamfélagi og öflugri almannaþjónustu.“

Þá sagði Ingibjörg Sif að félagið hafi boðið minni hópum trúnaðarmanna í félagamiðstöðina á Grettisgötu til funda. Á fyrsta fundinn komu trúnaðarmenn frá ríki og sjálfseignarstofnunum og á síðari fundinn komu trúnaðarmenn frá Reykjavíkurborg og sveitarfélögum.

„Þetta fyrirkomulag hefur reynst mjög vel enn sem komið er. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa náð að hitta trúnaðarmenn félagsins á þessum fundum þar sem umræðan hefur verið bæði opin og lífleg. Störf trúnaðarmanna eru félaginu mjög mikilvæg og það dylst engum hvað Sameyki hefur á að skipa öflugum trúnaðarmannahópi. Þeir eru tengiliðirnir við allt félagsfólk í Sameyki sem er mjög fjölbreyttur og kraftmikill hópur. Ég vil líka þakka ykkur fyrir hönd Sameykis fyrir virka þátttöku í kjarasamningum á þessu ári sem var ómetanlegt. Ykkar góða og þarfa starf sem trúnaðarmenn skilar sér svo sannarlega.“


„Ég elska orðið Kjaratölfræðinefnd!“
Að lokinni setningu formanns tók Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB, við og flutti erindi um kjaratölfræði hinnar rómuðu Kjaratölfræðinefndar.

„Ég elska orðið Kjaratölfræðinefnd, ég meina, hver gerir það ekki,“ sagði Sigríður Ingibjörg og uppskar hlátur í salnum. „Kjaratölfræðinefnd er ætlað að stuðla að því að aðilar hafi sameiginlegan skilning á eðli, eiginleikum og þróun þeirra hagtalna um laun og efnahag sem mestu varða við gerð kjarasamninga. Nefndin gefur venjulega út tvær skýrslur á ári, að vori og hausti.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB, flutti eru um kjaratölfræði.

Nefndin fjallar um laun og launaþróun eftir heildarsamtökum og gagnvart samningsaðilum ásamt launaþróun á yfirstandandi kjarasamingstímabili og kortleggur kjarasamningsumhverfiið. Þá er nefndin með yfirlit yfir þá kjarasamninga sem gerðir eru á íslenskum vinnumarkaði. Um er að ræða í kringum 300 kjarasamninga og nefndin fjallar um helstu þætti kjarasamninganna, en ég vil taka fram að þetta yfirlit var ekki til áður á einum stað,“ sagði Sigríður Ingibjörg.

Þá sagði hún að samkvæmt samsetningu vísitölu grunnlauna eftir vinnumörkuðum í maí 2024 bendir til þess að launajöfnuður sé að aukast.

„Tíundarstuðullinn [innsk. sjá bls. 44-45 í skýrslu Kjaratölfræðinefndar] hefur verið að lækka og það þýðir að launajöfnuður er að aukast,“ sagði Sigríður Ingibjörg og bætti við. „Kjaratölfræðiskýrslan sem kom út í haust ber þess merki að aðilar eru mislangt á veg komnir með gerð kjarasamninga. ASÍ og BSRB hafa lokið nær öllum samningum en BHM er búið með tæplega helming kjarasamninga og kjarabarátta KÍ stendur enn yfir þó búið sé að semja um frestun verkfalla.“


Ungt fólk og BSRB
Gunnsteinn R. Ómarsson, skrifstofustjóri Sameykis, sagði frá því hvað væri á döfinni hjá BSRB.

„Á nýlega afstöðnu þingi BSRB var ég kjörinn í stjórn bandalagsins þar sem ég sit fyrir hönd Sameykis stjórnarfundi, þó ég sé ekki formaður í stéttarfélagi hef ég jafnframt seturétt og málfrelsi- og tillögurétt á formannaráðsfundum BSRB. Ingibjörg Sif situr einnig formannaráðsfundina. Það er hlutverk okkar beggja að gæta hagsmuna Sameykis á þessum sameiginlega vettvangi og því má segja að við séum vel mönnuð fyrir það hlutverk, sagði Gunnsteinn.


Gunnsteinn R. Ómarsson, skrifstofustjóri Sameykis, á fundinum í dag.

Gunnsteinn sagði að samstarfið við BSRB væri Sameyki mjög mikilvægt og að ýmislegt komi inn á borð BSRB í því samstarfi.

Langar mig sérstaklega til að nefna eitt verkefni sem kom þar inn að frumkvæði starfsfólks Sameykis. Í hópi starfsfólksins er ungt fólk sem langar til að kveðja sér hljóðs um málefni ungra opinberra starfsmanna og stofna BSRB-Ung í anda ASÍ-Ung. Hugmyndafræðin með þessu verkefni er að virkja ungt fólk 35 ára og yngra til þátttöku í störfum stéttarfélaganna innan BSRB. Hægt er að hafa samband beint við BSRB til að taka þátt í þessu verkefni og ég hvet 35 og yngri til að gera það.Dagný Aradóttir Pind, lögfræðingur BSRB, mun halda utan um verkefnið en líka er hægt að hafa samband við skrifstofu Sameykis til að taka þátt,“ sagði Gunnsteinn.


Ný orlofshús, kjaramál og Stofnun ársins
Ingjólfur Björgvin Jónsson, deildarstjóri kjaradeildar, hélt stutt erindi um stöðuna á verkefnum kjaradeildar og þeirra kjarsamninga sem eftir eru að klára.

Vilhjálmur Ólafsson, rekstrarstjóri fasteigna orlofssjóðs, kynnti fyrir trúnaðarmönnum stöðu og framvindu á verkefninu á orlofshúsasvæðinu við Úlfljótsvatn. Þar er verið að endurnýja orlofshúsin. Þá greindi hann frá því að Orlofssjóður Sameykis hafi fest kaup á þremur eignum á árinu; íbúð í Reykjavík, parhús á Húsavík og raðhús á Egilsstöðum.

Jakobína Þórðardóttir, deildarstjóri félagsdeildar, sem hefur verið prímusmótor verkefnisins Stofnun ársins hjá Sameyki kynnti stöðu verkefnisins og sagði að þátttaka í könnuninni sé svipuð nú og á síðasta ári sem hún sagði að væri ánægjulegt.

„Trúnaðarmönnum verður boðið á málþingið um mannauðsmál 13. febrúar næstkomandi og í framhaldi er þeim boðið til hátíðar Stofnun ársins þar sem vinnustaðir og stofnanir eru veittar viðurkenningar,“ sagði Jakobína.

Að loknum erindum söng Rebekka Blöndal inn jólin í hjörtu trúnaðarmanna.

  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd
  • Fréttamyd