13. desember 2024
Segir Viðskiptaráð ekki sjá heildarmyndina
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir í pistli sem hún skrifar í dag að Viðskiptaráð sjái ekki heildarmyndina þegar það segir opinbera starfsmenn vera á hærri launum en launafólk á almennum vinnumarkaði. Viðskiptaráð heldur því fram að orlofsréttur, veikindaréttur, stytting vinnuvikunnar ofl, réttindi sem samið hefur verið um á vinnumarkaði opinberra starfsmanna teljist til 19 prósent hærri launa en á almenna vinnumarkaðnum.
Sonja Ýr svarar þessum „áróðri“ Viðskiptaráðs lið fyrir lið í greininni og spyr hvort fyrirtæki og félög séu virkilega að halda uppi sameiginlegum samtökum, Viðskiptaráði, sem tala fyrir skerðingu á réttindum launafólks, „[...] sem vinnur við að mennta, annast, hjúkra og gæta öryggis þeirra, barna þeirra, ættingja og starfsfólks?“
Stríð á hendur verkalýðshreyfingunni
Þá segir hún að þau réttindi opinberra starfsmanna sem Viðskiptaráð óskar sér heitast að verði afnumin eru sjálfsögð réttindi á borð við styttingu vinnuvikunnar, veikindarétt, starfsöryggi og orlofsrétt.
„Öll þessi atriði eru hluti af kjarasamningum fyrir starfsfólk sveitarfélaga, nær öll hluti af kjarasamningum fyrir starfsfólk ríkisins og afrakstur áralangrar baráttu launafólks á opinberum vinnumarkaði. Þessi réttindi er því ekki hægt að skerða nema að segja verkalýðshreyfingunni stríð á hendur.“
Lesa má grein Sonju Ýr Þorbergsdóttur hér.