Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

13. febrúar 2025

Málþing Sameykis: „Ég ætla að tala um hrós“

Auðunn Gunnar Eiríksson, stjórnenda- og vinnustaðaráðgjafi hjá Gallup

Í dag stóð Sameyki fyrir málþingi sem bar yfirskriftina Jákvæð vinnustaðamenning. Í upphafi sagði málþingsstjóri, Sirrý Arnardóttir, fjölmiðlakona, að innsýn í vinnustaðamenningu, ekki síst með fókus á jákvæða vinnustaðamenningu.

„Við erum hér saman komin í dag til að ræða um vinnustaðamenningu út frá ýmsum hliðum sem skipta einstaklinga og samfélagið allt miklu máli,“ sagði Sirrý.

Auðunn Gunnar Eiríksson, stjórnenda- og vinnustaðaráðgjafi hjá Gallup hóf umræðuna með erindi um hrós á vinnustöðum.

„Ég ætla að tala um hrós og viðurkenningu á vinnustöðum, um vinnustaðamenningu og mikilvægi þess að hrósa starfsfólki. Það skiptir höfuðmáli fyrir stjórnendur á vinnustöðum að þekkja mikilvægi þess að hrósa fólki og veita því viðurkenningu – endurgjöf. Það er ekki þannig að fólk hætti eða slaki á í vinnunni ef það fær hrós, þvert á móti, afköst aukast og fólk verður ánægðara í vinnunni. Samskipti eru lykilatriði í þessu sambandi og ég vil taka það líka fram að engin samskipti eru ein tegund samskipta á vinnustöðum.“

Auðunn Gunnar sagði að sumum stjórnendum þyki sjálfsagt að hrósa ekki starfsfólki fyrir góð störf vegna þess að það er „bara að vinna vinnuna sína“.

„Við hjá Gallup mælum hrós og viðurkenningu á vinnustöðum. Í könnun okkar kom í ljós að tíðni endurgjafar á vinnustöðum þurfi að vera minnst einu sinni í viku. En því oftar sem starfsfólki er hrósað því meiri helgun þess er í starfi. Helgun í starfi þýðir að fólk leggur meira á sig, en um leið veitir regluleg endurgjöf vörn eða vernd gegn kulnun í starfi. Hrós þýðir í raun umhyggja fyrir fólki samkvæmt því sem fram kemur í svörum fólks í okkar vinnustaðarannsókn.“


Málþing Sameykis var vel sótt í dag. Ljósmyndir/BIG

Þá sagði hann að lykillinn að því að ná árangri í jákvæðri vinnustaðamenningu er að taka eftir störfum starfsfólks, veita því eftirtekt og hrósa því af einlægni.

„Það er merkilegt að Ísland mælist neðar en önnur lönd í Evrópu í að hrósa starfsfólki. Hér á landi misskilja stjórnendur oft hvaða þýðingu hrós hefur; halda að það sé það sama og þakka fyrir þegar þeim er hjálpað með að leysa einhver verkefni fyrir þá. Það sem einkennir gott hrós er t.d. einlægni og tímasetningin – hvenær það er gert skiptir máli. Það skiptir höfuðmáli þegar er hrósað að það sé aðlagað að viðtakanda. Ég er ekki að tala um hrós menningu þar sem hrósað er eftir klukkunni, það virkar ekki. Það sem skiptir máli er að búa til jarðveg þar sem tekið er eftir góðum störfum og hrósað fyrir þau af einlægni. Fólki þarf að líða vel í vinnunni og að eftirtekt sé veitt að góðum störfum.

Það skiptir líka máli að tekið sé mark á skoðunum starfsfólks. Því þegar starfsfólk upplifir að á það sé hlustað, þá upplifir það sjálfstæði sem aftur veitir því vellíðan. Það finnur til ábyrgðar og geta til að leysa verkefni eykst. Meirihluti þess starfsfólks sem hafa fengið hrós eða viðurkenningu yfir sjö daga tímabil upplifir að skoðanir þess skipti skipti máli, eða tæplega 4 af hverjum 5. En þriðjungur af þeim upplifa það sama sem ekki er hrósað,“ sagði Auðunn Gunnar um hrós og jákvæða vinnustaðamenningu.