Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

18. febrúar 2025

EKKO: Einkenni góðs vinnustaðar – gagnkvæm virðing

Þórkatla Aðalsteinsdóttir, sálfræðingur,á málþingi Sameykis um jákvæða vinnustaðamenningu. Ljósmyndir/BIG

„Ég ætla að tala um hvað við gerum eftir að hafa fengið niðurstöður úr EKKO þegar um er að ræða einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustaðnum, eða ekki, þá er vinnustaðurinn í þeim tilfellum undirlagður þegar um er að ræða EKKO-mál,“ sagði Þórkatla Aðalsteinsdóttir sálfræðingur og einn af eigendum sálfræðistofnunnar Líf&Sál á málþingi Sameykis þar sem fjallað var um jákvæða vinnustaðamenningu.

Í könnuninni Stofnun ársins voru þátttakendur spurðir um EKKO (einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi), og ræddi Þórkatla um þær áskoranir sem stjórnendur á vinnustöðum standa frammi fyrir sem vinnustaðurinn kann að þurfa að ganga í gegnum vegna eineltis, ofbeldis, kynbundinnar áreitni og kynferðislegrar áreitni.

„EKKO-málin eru mál sem ræna stjórnendur svefni. Þeir vakna t.d. klukkan þrjú að nóttu, bylta sér og að reyna að leysa þessi mál. Það er versti staðurinn til þess. Eitt er víst að mannleg hegðun er alls konar, það sem einum finnst eðlilegt þykir öðrum vera fáránlegt, og þar fram eftir götum. En við erum svo heppin að vera með reglur um hvernig má og hvernig má ekki haga sér á vinnustað sem kveðið er á í lögum um hollustuhætti á vinnustað og reglugerð sem þeim fylgir frá árinu 2015. Það er ekki þannig að fólk verði að taka öðru fólki eins og það er – nei! Það er ekki þannig. Fólk þarf ekki að taka þér eins og þú ert, alls ekki ef það sem þú ert og finnst eðlilegt – að vera dóni,“ sagði Þórkatla, og bætti við: „Við verðum að halda okkur innan þessara laga á vinnustaðnum, annars er vinnan okkar í hættu. Ef gerandi viðurkennir ekki eða hefur ekki innsæi í eigin mistök þá þurfa að eiga sér stað leiðbeinandi samtöl um framhaldið eða jafnvel brotthvarf af vinnustað.“

Þórkatla ræddi að það skipti miklu máli að ná jafnvægi í samskiptum starfsfólks á vinnustaðnum, að fólk héldi sig í sínum hlutverkum sem þurfa að vera nokkuð vel skilgreind og af því leiddi að ástunduð væri fagmennska í störfum og velvild og virðing fyrir hvert öðru. Um samskiptaerfiðleika á vinnustaðnum sagði Þórkatla að þegar fyrir lægi ágreiningur án lausnamiðaðra viðhorfa gæti það leitt til frekari erfiðleika; neikvæðra samskiptahátta og vanvirðingar. Slíkar kringumstæður gætu leitt til eineltis, kynbundinnar áreitni, kynferðislegrar áreitni eða annars konar áreitni og ofbeldi á vinnustaðnum.

„Góðu teymin á vinnustaðnum eru þau þar sem er gagnkvæm virðing, því virðing skapar öryggi. Það er svo gott að hugsa samskiptin þannig; það verður að koma auga á það þegar samskiptin eru ekki góð á vinnustaðnum og grípa inn í með því segja t.d.: „Svona tölum við ekki saman hér og þú vilt ekki láta tala svona við þig,“ og þannig snúa okkur að því að koma á jafnvægi í samskiptum, ástunda fagmennsku og sýna velvild og virðingu fyrir hvert öðru.“


Mannleg hegðun: „Það er heilmikil óvissa þegar kemur að mannlegri hegðun,“ sagði Þórkatla. „Við getum ekki séð fyrir hegðun fólks, getum svona oftast getið í eyður. Þessi er alltaf mættur snemma í vinnuna, þessi fær sér alltaf 2x á diskinn og þessi drekkur te en ekki kaffi. En við erum flóknari en svo.”

Þá sagði hún að stjórnendur á vinnustöðum gætu komið á sálrænu öryggi á vinnustaðnum eftir að unnið hefði verið úr tiltekinni EKKO-kvörtun með fagfólki.

„Hvernig getum við hjálpað löskuðum starfshópi? Starfsfólki þykir oftar en ekki vænt um vinnustaðinn sinn. Við viljum ekki að vinnustaðurinn fái á sig slæmt orð, að ekki komi upp kvartanir á vinnustaðnum, og við viljum sérstaklega ekki að við séum á milli tannanna á fólki og rætt sé um meðal fólks að það sé t.d. einelti á vinnustaðnum. Því þurfum við að spyrja okkur hvernig við getum komið á gagnkvæmri virðingu milli fólks á vinnustaðnum; koma á umburðarlyndi ef fólk er farið að setjast of mikið í dómarasætið. Við þurfum fyrst og fremst að skoða samskiptin og hvaða ábyrgð stjórnandi ber þar. Fyrst ber að nefna ábyrgð stjórnandans til ákvarðanatöku og rétt hans til að stjórna, í öðru lagi skyldur og ábyrgð starfsfólks á vinnustað, og í þriðja lagi rétt starfsfólksins til að starfa við sálfélagslegt öryggi og í andlega heilbrigðu vinnuumhverfi. Hlutverk stjórnenda er að taka á móti EKKO-kvörtunum, setja málin í farveg og vinna úr þeim. Því má ekki gleyma að hver og einn starfsmaður ber ábyrgð. Starfsfólk getur sett sín mörk og stjórnandi getur stutt við þau mörk og brugðist við þegar farið er yfir þau,“ sagði Þórkatla.

Þá sagði Þórkatla að þeir þættir sem skoða þyrfti til að gæta að sálrænu öryggi á vinnustaðnum væru: Starfsöryggi og breytingar, mikið og langvarandi álag í starfi, öfund samstarfsfólks og einelti, samkeppni og óskýr og illa skilgreind hlutverk á störfum fólks. Hún benti á að einelti á vinnustaðnum er alvarlegt mál og hugtak. Það þýðir að sálrænu öryggi fólks á vinnustað er ógnað og að verið sé að beita andlegu ofbeldi þegar einelti á sér stað.

„Bæði þolendur og gerendur þurfa á sálrænum stuðningi að halda þegar EKKO-mál á sér stað. Stuðningur við þolandann gengur út á að hjálpa viðkomandi til að vinna úr því ofbeldi sem hann hefur orðið fyrir, hjálpa þarf að öðlast aftur sjálfstraust og vinna úr kvíða vegna eineltis, ofbeldis og eða áreitni af völdum gerandans auk fleiri sálrænna þátta. Ég er líka á þeirri skoðun, og ekki eru allir sammála mér með hana, að stjórnandinn á vinnustaðnum þarf að biðja þolandann afsökunar á því sem gerðist á vakt stjórnandans, stjórnandinn brást þolandanum. EKKO verður ekki til í einhverju tómarúmi, það verður til í einhverjum jarðvegi sem stjórnendur hafa látið hjá líða að breyta og leyfa þannig að viðgangast. Gerandinn þarf leiðbeinandi sálrænan stuðning til að auka innsýn hans í hvaða áhrif framkoma hans hafði. Það er ekki víst að gerandi sé til í slíka sjálfsvinnu og það er heldur ekki víst að gerandinn hafi upplifað að hann hafi gert eitthvað rangt af sér. Þá þarf að taka leiðbeinandi samtal með skýrum tilmælum um að ef hann breytir ekki hegðun sinni þurfi hann að yfirgefa vinnustaðinn því hegðunin fer gegn EKKO-áætlun vinnustaðarins – fer gegn gildum vinnustaðarins.“

Hlýða má á fyrirlestur Þórkötlu á málþingi Sameykis, Jákvæð vinnustaðamenning, hér fyrir neðan og hefst fyrirlestur hennar á 1:55:0 mínútu.