Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

25. febrúar 2025

Yfirlýsing heildarsamtaka launafólks vegna tilskipunar Bandaríkjaforseta

Stuðningsmenn veifa regnbogafánanum í Bandaríkjunum, fána frelsis, jafnréttis og fjölbreytileika.

Heildarsamtök launafólks, BSRB, ASÍ, BHM og KÍ taka undir yfirlýsingu Samtakanna 78 og hvetja stjórnvöld til að taka afgerandi stöðu gegn nýlegri tilskipun Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um tvö kyn. „Með tilskipuninni afneitar forsetinn tilvist trans og intersex fólks og gerir réttindi þeirra að engu, réttindi sem barist var ötullega fyrir í langan tíma," segir í yfirlýsingu ASÍ, BSRB, BHM og KÍ. Yfirskrift yfirlýsingarinnar er: Mannréttindabrot verða ekki liðin.

Þar segir ennfremur að framkoma, ákvarðanir og stefnumótun valdhafa erlendis geti haft alvarlegar afleiðingar og valdið bakslagi og mikilli afturför í jafnréttismálum. „Ef við veitum ekki viðspyrnu og sýnum hvers megnug við erum er voðinn vís."

Sameiginleg yfirlýsing heildarsamtakanna í heild sinni.

Mannréttindabrot verða ekki liðin
Framkoma, ákvarðanir og stefnumótun valdhafa erlendis geta haft alvarlegar afleiðingar og valdið bakslagi og mikilli afturför í jafnréttismálum, líka hér á landi. Ef við veitum ekki viðspyrnu og sýnum hvers megnug við erum er voðinn vís. Heildarsamtök launafólks styðja yfirlýsingu Samtakanna 78 og hvetja stjórnvöld til að taka afgerandi afstöðu gegn nýrri tilskipun Bandaríkjaforseta um tvö kyn. Með tilskipuninni afneitar forsetinn tilvist trans og intersex fólks og gerir réttindi þeirra að engu, réttindi sem barist var hatrammlega fyrir í langan tíma. Heildarsamtökin taka undir kröfu Samtakanna 78 um að íslensk stjórnvöld fordæmi tilskipun Bandaríkjaforseta og standi með hinsegin fólki á alþjóðavettvangi, ekki síst í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Ísland stendur framar en mörg önnur ríki þegar kemur að jafnréttismálum og réttindum hinsegin fólks og horft er til Íslands sem fyrirmyndar. Því fylgir ábyrgð sem stjórnvöld verða að standa undir. Skerðing mannréttinda og mannréttindabrot verða ekki liðin.

Sjá má frétt frá Bandaríska tímaritinu Mother Jones um tilskipun forseta Bandaríkjanna hér.