26. febrúar 2025
Lífeyrismál: Lífeyrisréttindi rædd á fundi Lífeyrisdeildar Sameykis

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri hjá Landssamtökum lífeyrissjóða
Lífeyrisdeild Sameykis stóð fyrir fundi um lífeyrisréttindi opinberra starsmanna í félagamiðstöðinni á Grettisgötu 89 í dag. Árni Stefán Jónsson, fyrrv. formaður Sameykis stýrði fundinum og bauð gesti og fyrirlesara velkomna að hlýða á fróðleg erindi um lífeyrismál. Framsögumenn voru Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri hjá Landssamtökum lífeyrissjóða, Anna Björk Sigurðardóttir frá LSR og Þóra Jónsdóttir frá Brú lífeyissjóði.
Árni Stefán Jónsson, fyrrv. formaður Sameykis stýrði fundinum.
Þórey fjallaði um grunnstoðir íslenska lífeyriskerfisins. Hún fór yfir almannatryggingakerfið í sögulegu samhengi. Hún sagði að árið 1919 hafi Lífeyrissjóður embættismanna verið stofnaður sem síðar varð LSR.
„Sjóðirnir innan landssamtakanna eru ólíkir en helsta hlutverk þeirra er að gæta að hagsmunum félaganna í sjóðunum. Einnig er hlutverk þeirra að gæta að réttindum sjóðsfélaga gagnvart stjórnvöldum – að réttindi sjóðsfélaga skerðist ekki við ákvarðanatöku stjórnvalda hverju sinni.“
Þrjár meginstoðir lífeyriskerfisins
Hún sagði að fjöldi lífeyrissjóða hafi fækkað, enda hafi þeir verið alltof margir, voru árið 1980 96 talsins en eru núna 19 talsins. „Kerfið er þriggja stoða kerfi og byggir á lífeyrissjóðum, almannatryggingum og frjálsum sparnaði sem mynda þessar þrjár meginstoðir. Hver þeirra hefur sérstöku hlutverki að gegna. Engin ein stoðanna nær þeim markmiðum sem stefnt er að en þegar þær eru allar nýttar saman má byggja öflugt lífeyriskerfi sem nær til allra og er það byggt upp eftir leiðbeiningum frá Alþjóðabankanum. Margir halda því fram í dag að lífeyrissjóðir séu að skerða lífeyrisgreiðslur en það er ekki svo í rauninni og á ekki við þá sem eru nú þegar á lífeyri. Samkvæmt lögum hafi verið ákveðið að skerða lífeyrisréttindi til framtíðar litið á alla starfandi því kerfið þurfi að standa undir því að greiða út lífeyrir í framtíðinni vegna þess að þjóðin lifir lengur en áður. Þannig hefur gjaldið sem greitt er til sjóðanna hækkað ár frá ári en skylduiðgjaldið er nú 11.5% af launum. Íslenska lífeyriskerfið er nú í öðru sæti á eftir Hollandi en Danmörk er í þriðja sæti á lista Mercer sem mælir vísitölu lífeyriskerfa á alþjóðlega vísu sem byggir á nægjanleika, sjálfbærni og trausti. Á erlendum vettvangi er Ísland tekið sem dæmi um vel heppnaða uppbyggingu lífeyriskerfis.“
LSR stærsti lífeyrissjóður landsins
Hún sagði að hlutverk lífeyrissjóða væri einfalt í sjálfu sér – að taka á móti iðgjöldum, ávaxta þau og greiða svo út lífeyrir.
„Við þurfum að takst á við áskoranir um að ávaxta vel tekjur sjóðanna. Eignir þeirra eru miklar og er LSR stærsti lífeyrissjóður landsins. Tíu stærstu sjóðirnir eru með 90 prósent eigna allra lífeyrissjóða, og fimmtán stærstu sjóðirnir eru með 98 prósent allra eigna. Því eru margir litlir sjóðir til sem mætti sameina.“
Karlar skemur á lífeyri en konur
Lögbundinn lífeyrisaldur er 67 ára. Þórey sagði að á Íslandi fara karlar á lífeyri í kringum 68 ára aldurinn en konur um 66 ára aldur.
„Íslendingar vinna áberandi lengi miðað við aðrar þjóðir í kringum okkur. Konur eru að jafnaði 23 ár á lífeyri en karlar um 19 ár, en karlar lífa skemur en konur. Lífeyriskerfið er í dag mjög sterk en áskoranir sem við stöndum frammi fyrir eru hækkandi lífaldur, örorka og ávöxtunin sem þarf að vera 3,5% samkvæmt lögum. Starfandi einstaklingar í byrjun árs 2023 voru 5,5 einstaklingar fyrir hvern einstakling sem var á lífeyri. Á árinu 2060 verður hver vinnandi 2,8 fyrir hvern þann sem er á lífeyri. Þannig munu færri vinnandi halda uppi lífeyriskerfinu þá en í dag. Ísland á heimsmet þar sem lífeyrissjóðir eru að greiða hærri lífeyrisgreiðslur til sjóðsfélaga, en ríkið (Tryggingastofnun ríkisins) er á sama tíma fá fleiri greiddar örorkubætur frá ríki en lífeyrissjóðum,“ sagði Þórey.