Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

6. mars 2025

Segir ríkisstjórnina fara gegn opinberum starfsmönnum

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, gagnrýnir harðlega hagræðingartillögur ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur. Ljósmyndir/Sameyki/BIG

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hyggst með hagræðingaráformum sínum fella á brott ákvæði í lögum um að áminna þurfi opinbera starfsmenn áður en til uppsagnar kemur. Starfshópur um hagræðingu í ríkisrekstri leggur þetta til.

Formaður BSRB, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, segir það vera ígildi stríðsyfirlýsingar að skerða réttindi opinberra starfsmanna. Enn fremur segir formaður BSRB í viðtali við RÚV að margar þær hagræðingartillögur sem ríkisstjórnin hefur kynnt dragi taum Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs.

„Við lítum einfaldlega svo á að ef ríkisstjórnin tekur upp þessar tillögur þá er það í raun bara stríðsyfirlýsing við verkalýðshreyfinguna,“ sagði Sonja í viðtali við ríkisútvarpið í hádeginu í gær.

Þá sagði hún að hinn raunverulegi vandi í starfsmannamálum ríkisins sé mikil starfsmannavelta, mönnunarskortur, mikil veikindafjarvera o.fl.

Að lokum varar hún við áformum ríkisstjórnarinnar að efla valdheimildir ríkissáttasemjara að grípa inn í vinnudeilur sem muni skerða verkfallsrétt verkalýðsfélaganna í landinu. Sonja segir að sú tillaga hafi komið beint frá Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði.

„Í grunninn er það þannig að ef ríkissáttasemjari getur gripið inn í með þessum hætti þá lítum við svo á að við séum ekki sammála um það lýðræði sem við höfum byggt upp og er bara í samræmi við þá alþjóðasamninga sem við höfum innleitt hérna. Það er auðvitað félagsfólkið sjálft sem greiðir atkvæði um hvort það eigi að fara í verkfall og það á engin ein manneskja að geta gripið inn í það.“

Um reglur um áminningarferli opinberra starfsmanna má finna bæði í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og kjarasamningum starfsmanna sveitarfélaga. Samkvæmt lögum gilda engar sérreglur á opinberum vinnumarkaði aðrar en sem eiga við um uppsagnir starfsfólks vegan skipulagsbreytinga. Almennt gildir að ef uppsögnin er ekki liður í skipulagsaðgerðum þarf fyrst að áminna starfsmanninn og gefa viðkomandi kost á að bæta ráð sitt áður en til uppsagnar kemur. Um er að ræða réttindi sem opinberir starfsmenn hafa náð fram með baráttu og eru tryggð réttindi í kjarasamningum og í lögum frá alþingi. Sjá hér.

Fjallað var um aðförina að verkfallsrétti launafólks í Tímariti Sameykis, 1. tbl. 2024 og rætt m.a. við Thomas Lynge Madsen yfirmann greiningar hjá HK Stat stéttarfélagi í Danmörku um valdheimildir sáttasemjara í kjaradeilum á Norðurlöndunum. Þar segir: „Ráðamenn og hagsmunaaðilar beita gjarnan fyrir sig fyrirkomulagi í kjaradeilum á „hinum Norðurlöndunum“ þegar þeir tala fyrir því að veikja verkfallsrétt launafólks með því að auka valdheimildir ríkissáttasemjara til að koma í veg fyrir verkföll. Ef stjórnmálin myndu styðja launafólk í landinu myndi þau auðvitað ekki tala fyrir því að veikja verkfallsréttinn, þvert á móti, tala um hann af sömu virðingu og verkalýðshreyfingin.“

Sjá sameiginlega yfirlýsingu BSRB, BHM og KÍ vegna þessa hér.