Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

10. mars 2025

Orlofshús Sameykis á Húsavík

Hraunholt 24 er nýr orlofskostur fyrir félagsfólk. Um er að ræða parhús í Hraunholti á Húsavík sem Orlofssjóður Sameykis festi kaup á og sagt var frá í Tímariti Sameykis, 1. tbl. 2024. Um er að ræða fjögurra herbergja hús á einni á hæð. Eignin er 105,7 m2 að stærð auk þess sem um 12 m2 garðskúr er við húsið þar sem geymd eru útigrill og garðhúsgögn.

Í húsinu eru þrjú svefnherbergi, tvö baðherbergi, eldhús, stofa, forstofa og þvottahús með þvottavél og þurrkara. Timburverönd fyrir aftan hús snýr í norður og þar er hægt að sitja og njóta útsýnis yfir Húsavík og Skjálfanda, og einnig fyrir framan hús og snýr í suður. Golfvöllur Húsvíkinga er við hliðina á húsinu og því er hægt að ganga með kylfurnar beint út á völl ef menn vilja það. Átta manns geta gist með góðu móti í húsinu og því fylgir líka heitur pottur fyrir sama fjölda.

Eldhúsinnrétting er með innbyggðum ísskáp, uppþvottavél og öðrum tækjum frá AEG en eldhúsinnréttingin er frá HTH. Hún er í alrými ásamt stofu. Baðherbergi eru flísalögð bæði á vegg og gólfi í sturturými. Sturta með glerskilrúmi er á öðru baðherberginu.

Stofan er rúmgóð og með gólfsíðum gluggum ásamt útgengi út á verönd um rennihurð. Herbergi eru öll með fataskápum og forstofan er flísalögð með fataskáp. Gólfhiti er í húsinu og bílastæði eru fyrir framan hús.

Opnað var fyrir bókanir á orlofshúsinu á janúar á þessu ári. Sjá nánar um orlofshúsið á Orlofshúsavef Sameykis.