12. mars 2025
Styrktar- og sjúkrasjóður og dómsmál rædd á trúnaðarmannaráðsfundi

Frá fundi trúnaðarmannaráðs í dag.
Fundur í trúnaðarmannaráði Sameykis var haldinn í dag. Fjallað var um rekstur Styrktar- og sjúkrasjóðs, fyrningu orlofs, niðurstöðu Landsdóms og Félagsdóms um hvort starfsfólki sé skylt að fara til trúnaðarlæknis, persónuálag hjá Reykjavíkurborg. Þá var fjallað um kosningu trúaðarmanna sem fer fram í maí nk.
Kári Sigurðsson, formaður Sameykis.
Kári Sigurðsson, formaður Sameykis, bauð trúnaðarmenn velkomna á fundinn, kynnti sig og sagði frá sínum fyrri störfum en hann hefur starfað í félagsmiðstöðvum hjá Reykjavíkurborg sinn starfsferil. Þá hvatti hann trúnaðarmenn til að koma á aðalfund Sameykis sem verður haldinn 27. mars nk.
Borghildur Sigurðardóttir, fjármálastjóri Sameykis, kynnti rekstrarreikning Sjúkra- og styrktarsjóðs og þær áskoranir sem sjóðurinn stendur frammi fyrir vegna reksturs hans. Fjöldi umsókna hefur aukist sem hefur áhrif á stöðu hans og skilgreina þurfi útgreiðslur úr sjóðnum sem hafa aukist á milli ára.
Þá ræddi hún um tilgang sjóðsins að veita félagsfólki fjárhagsaðstoð í veikindum, að styðja og efla félagsfólk vegna endurhæfingar eftir slys eða sjúkdóma og að styðja og efla félagsfólk í forvörnum og fyrirbyggjandi aðgerðum. Hún sagði að í öðrum stéttarfélögum sé þak frá 525 þúsund í 801 þúsund krónur.
„Sameyki er eini sjóðurinn sem ekki er með þak og veitir almennt hærri styrki til félagsfólks en önnur stéttarfélög,“ sagði Borghildur. Umræður fóru fram á fundinum um hvert helsta hlutverk sjóðsins væri til framtíðar.
Borghildur Sigurðardóttir, fjármálastjóri Sameykis.
Eftir kaffihlé ræddi Jenný Stefánsdóttir, lögfræðingur í kjaradeild Sameykis, um niðurstöður dóma Félagsdóms og Landsdóms sem varða m.a. hvort starfsfólki sé skylt að fara til trúnaðarlæknis og um fyrningu orlofs. Sagði Jenný að ef atvinnurekandi telur aðkomu trúnaðarlæknis nauðsynlega ætti verklagið að vera með þeim hætti að trúnaðarlæknir kynni sér mál viðkomandi starfsmanns, setji sig í samband við lækni eða aðra meðferðaraðila viðkomandi starfsmanns og leggi mat á það hvort þörf sé á því að viðkomandi starfsmaður mæti til læknisskoðunar.
Jenný Stefánsdóttir, lögfræðingur í kjaradeild Sameykis.
„Í þessu sambandi má benda á að hin hefðbundnu læknisvottorð gera ráð fyrir því að þriðji aðili geti leitað upplýsinga hjá þeim lækni sem gefur þau út, og því geta trúnaðarlæknar fengið allar upplýsingar um heilsufar viðkomandi frá þeim lækni ef þörf er á,“ sagði Jenný.
Að yfirferð Jennýjar lokinni kom Sigdís Þóra Sigþórsdóttir, sérfræðingur í kjaradeild Sameykis, og fór yfir persónuálag hjá Reykjavíkurborg.
Sigdís Þóra Sigþórsdóttir, sérfræðingur í kjaradeild Sameykis.
Sigdís Þóra sagði m.a. að gert sé ráð fyrir því að hver stofnun eða fyrirtæki setji fram starfsþróunaráætlun fyrir alla starfsmenn í starfsáætlun sinni til að tryggja eðlilega starfsþróun og símenntun starfsmanna í samræmi við starfsmannastefnu Reykjavíkurborgar. Þannig ávinnur starfsfólk sér persónuálag vegna bæði starfsreynslu og menntunar sem er umfram grunnkröfur í starf. Fjórar greinar í kjarasamningi Sameykis og Reykjavíkurborgar fjalla um persónuálag. Tvær þeirra snúa að störfum sem gera ekki kröfu um háskólamenntun en hinar tvær að störfum sem krefjast háskólamenntunar..
Að lokum kynnti Jakobína Þórðardóttir, deildarstjóri félagsdeildar Sameykis, fyrir trúnaðarmönnum kosningu trúnaðarmanna sem fer fram í maí nk. Jakobína sagði að trúnaðarmenn væru lífæð félagsins og áréttaði fyrir þeim að tilkynna niðurstöðu kosninganna til Sameykis, „Það er ekki nóg að kjósa trúnaðarmann fyrir vinnustaðinn og segja ekki neinum frá því,“ sagði Jakobína.
Jakobína Þórðardóttir, deildarstjóri félagsdeildar Sameykis.
Að loknum umræðum var fundi slitið.